Tíu milljónir í orlofsgreiðslu

Dagur átti samkvæmt ákvæðum kjarasamninga rétt á 240 stunda orlofi …
Dagur átti samkvæmt ákvæðum kjarasamninga rétt á 240 stunda orlofi á ári, þau tíu ár sem hann gegndi starfi borgarstjóra. mbl.is/Árni Sæberg

Til viðbótar við 9,6 milljónir í biðlaun greiðir borgin Degi B. Eggertssyni 9,7 milljónir í orlofsuppgjör vegna síðastliðinna tíu ára.

Í svari borgarritara vegna fyrirspurnar Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnað vegna orlofsuppgjörs við fyrrverandi borgarstjóra, kemur fram að Dagur átti samkvæmt ákvæðum kjarasamninga rétt á 240 stunda orlofi á ári, þau tíu ár sem hann gegndi starfi borgarstjóra.

Orlofið safnaðist upp

Í svarinu kemur fram að fyrrverandi borgarstjóri hafi á þeim árum ekki haft tök á að taka fullt orlof og því hafi óteknar orlofsstundir safnast upp og verið fluttar á milli orlofsára.

Þessi framkvæmd hafi verið viðhöfð eins gagnvart öllu starfsfólki Reykjavíkurborgar sem ekki hafi tök á að taka orlof og nýta áunnar orlofsstundir.

Við gildistöku kjarasamninga árið 2020 hjá Reykjavíkurborg, ríki og Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafi komið inn nýtt ákvæði þar sem skerpt var á heimildum til frestunar og þá einnig fyrningu orlofs.

Meðal þeirra markmiða sem búa að baki breytingu á orlofskafla kjarasamnings og framkvæmd honum tengdum sé verið að tryggja að starfsfólk fái notið orlofs til að ná hvíld og endurheimt frá starfi í samræmi við rétt þess þar á, en safni honum ekki upp, segir í svari borgarritara.

Í samræmi við orlofsuppgjör æðstu embættismanna

Hildur segir að í svari borgarritara komi fram að þetta sé í samræmi við orlofsuppgjör æðstu embættismanna borgarinnar og það kalli á sérstaka skoðun líka.

„Okkur finnst ekki eðlilegt að gera upp tíu ára uppsafnað orlof við fyrrverandi borgarstjóra miðað við þær fyrningarreglur sem gilda um orlofsuppgjör. Mér þykir eðlilegt að kalla eftir upplýsingum um hvernig uppgjöri hefur verið háttað við starfslok æðstu embættismanna á undanförnum árum.“

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. mbl.is

Hildur segir að í kjarasamningi milli borgarinnar og Sameykis komi fram að ekki sé heimilt að fresta orlofsgreiðslum milli ára nema um sérstakar kringumstæður sé að ræða eins og við fæðingarorlof eða þá að yfirmaður hafi krafist þess vegna verkefna sem þyrfti að ljúka.

„Það er ekki hægt að sjá að slíkt eigi við í tilfelli borgarstjóra,“ segir Hildur og telur að það sé eðlilegt framhald í málinu að fá túlkun Sameykis á því hvort orlofsgreiðslur til borgarstjóra tíu ár aftur í tímann séu samkvæmt kjarasamningnum.

„Almenna reglan er að starfsmenn taki út orlof sitt á orlofsárinu. Hugmyndin á bak við orlofið er væntanlega sú að starfsmenn taki út hvíld og mæti svo endurnærðir í vinnu að fríi loknu. Ég fæ ekki séð að þær aðstæður hafi verið uppi sem réttlæti greiðslur tíu ára uppsafnaðs orlofs,“ segir Hildur Björnsdóttir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert