Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð út til að aðstoða leigubílstjóra sem hafði ekið farþega, en hann vildi ekki greiða fyrir aksturinn þegar á áfangastað var komið. Málið var leyst á vettvangi.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu frá klukkan 5 til 17 í dag.„
Í morgunsárið var lögregla send ásamt sjúkraliði að bílveltu í útjaðri borgarinnar. Lítils háttar meiðsl voru á ökumanni sem reyndist vera verulega ölvaður við akstur og var handtekinn í þágu rannsóknar málsins.
Þá fékk lögreglan tilkynningu um mann sem hafði fengið bor í augað í heimahúsi. Lögreglan fór á vettvang ásamt sjúkrabíl en betur fór en á horfðist og reyndust meiðsli minniháttar.
Alls eru 65 mál bókuð í kerfum lögreglu og þar á meðal er mál manns sem var handtekinn fyrir sölu og dreifingu fíkniefna. Málið er komið í rannsókn.