Stálheppinn gestur á þjóðhátíðinni í Vestmannaeyjum datt svo sannarlega í lukkupottinn en hann vann 37 milljónir króna í Eurojackpot.
Í tilkynningu frá Íslenskri getspá segir að gestur á þjóðhátíðinni hafi á leið inn í Herjólfsdal ákveðið að kaupa 10 raða miða í Eurojackpot með Lottó appinu. Hann valdi í fyrstu 10 raða sjálfval en ákvað að eyða síðustu röðinni og valdi afmælisdaga fjölskyldunnar sem síðustu röðina. Í gríni tjáði hann vinum sínum að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af kostnaðinum af skemmtanahaldinu í Eyjum.
Eftir þjóðhátíðina fékk hann símtal frá starfsmanni Íslenskrar getspár þar sem honum var greint frá því að hann hafi unnið tæpar 37 milljónir króna. Ungi maðurinn hélt í fyrstu að um grín væri að ræða frá vinum sínum en svo reyndist ekki vera. Hann hlaut þriðja vinning í Eurojackpot og það var röðin sem hann valdi með afmælisdögum fjölskyldunnar sem skilaði honum vinningum góða.
Fram kemur í tilkynningunni að hinn heppni ætli að nýta vinninginn til að kaupa sína fyrstu íbúð en hann býr hjá foreldrum sínum og hefur verið að skoða sig um á fasteignamarkaðnum.