Varar við fleiri tilfellum í vetur

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir á von á því að covid-tilfellum fjölgi …
Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir á von á því að covid-tilfellum fjölgi aftur í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir varar við því að covid-tilfellum á Íslandi muni fjölga í vetur þrátt fyrir að tilfellum hafi fækkað undanfarnar vikur.

Í viðtali við mbl.is segir Guðrún að þó staðan virðist vera róleg sem stendur, sé veiran enn til staðar.

„Við erum að sjá á milli 20 og 30 tilfelli á viku núna,“ segir Guðrún. „En það eru auðvitað fleiri sem veikjast án þess að leita til læknis eða fara í PCR-próf. Þessi tölur gefa okkur þó ákveðna mynd af stöðunni.“

Hún tekur einnig fram að í sumar hafi tilfellum fjölgað tímabundið og að veiran hafi þá náð ákveðnum toppi, en staðan hafi síðan róast aftur.

„Þetta er þó enn í dreifingu augljóslega,“ bætir hún við, „en við eigum ekkert von á því að þetta fari, covid er ekkert að haga sér þannig.“

Hópsýking í sumar

Þegar Guðrún er spurð hvort einhver alvarleg tilfelli sem leitt hafi til innlagna á sjúkrahús hafi komið, útskýrir hún að nokkrir einstaklingar hafi greinst með kórónuveiruna á spítalanum.

„Við vitum ekki nákvæmlega hverjir eru þar vegna covid eða hafa verið lagðir inn af öðrum orsökum en fá svo einkenni,“ segir hún.

„Fólk sem var á spítalanum fékk einkenni og það var kannski ekki aðalástæðan fyrir því að það var á spítalanum, en auðvitað gat það valdið því að undirliggjandi sjúkdómar versnuðu eða lengdu dvölina.“

Guðrún nefnir einnig hópsýkingu sem átti sér stað á spítalanum í sumar sem hafi valdið því að tilfellum fjölgaði þar á meðal starfsfólks og sjúklinga. „Þá voru flestir með væg einkenni,“ bætir hún við.

Covid fer ekkert í burtu

Þrátt fyrir þessa fækkun tilfalla varar Guðrún við því að ástandið gæti breyst með vetrinum. „Við eigum samt von á því að covid-tilfellum fjölgi aftur í vetur eins og hefur verið. Það er svona hegðun þessara öndunarfærasýkinga í okkar heimshluta, þetta er meira yfir veturinn,“ útskýrir hún.

Hún talar um að covid sé enn tiltölulega nýr sjúkdómur, þrátt fyrir að hafa verið til staðar í fjögur ár. „Það er ekki alveg komið svona ákveðið mynstur,“ segir Guðrún.

„Covid fer ekki í burtu eins og inflúensan gerir. Þannig hún hegðar sér klárlega öðruvísi eins og er, og ekki komið alveg svona ákveðið mynstur þannig maður geti sagt til um hvernig þetta verður með þau tilfelli, hvorki núna í haust eða vetur eða næsta sumar,“ segir Guðrún

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert