Launin bitna á heilsu kvennanna

Berglind Hólm Ragnarsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknarinnar í höfuðstöðvum ASÍ í …
Berglind Hólm Ragnarsdóttir kynnti niðurstöður rannsóknarinnar í höfuðstöðvum ASÍ í morgun.

Láglaunakonur á Íslandi eiga minna félagslegt bakland og eru mun líklegri en hálaunakonur til að upplifa alvarleg einkenni kvíða, streitu og þunglyndis. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu láglaunakvenna.

Skýrslan sem unnin er upp úr niðurstöðum rannsóknar fræðikvenna við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og Vörðu – rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins var kynnt í morgun. 

Rannsóknina leiddi Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, en hún segir að þó að niðurstöðurnar komi kannski ekki á óvart séu þær sláandi. 

Birtingarmyndir ójafnaðar ekki bara fjárhagslegar

„Það sem þessi skýrsla er að segja okkur er að það eru ýmsar birtingarmyndir ójafnaðar og ekki endilega bara fjárhagslegar. Þannig sjáum við að láglaunakonur eiga minna félagslegt bakland, þær hafa færri sem þær geta leitað til ef þeim vantar peningaupphæð að láni og barnapössun til dæmis. Við sjáum líka að þær eru líklegri til að upplifa kvíða, streitu og þunglyndiseinkenni daglega,“ segir Berglind.

Þegar talað er um láglaunakonur í skýrslunni er átt við þær sem eru með tekjur undir 499 þúsund krónum á mánuði en hálaunakonur eru þær sem eru með yfir 800 þúsund krónur í tekjur.

Meðal þess sem kemur fram í skýrslunni er að 39% láglaunakvenna sýna einkenni klínísks þunglyndis en í hópi hálauna kvenna er hlutfallið 15%.

Þá eru láglaunakonur þrefalt líklegri en hálaunakonur til að upplifa alvarleg eða mjög alvarleg einkenni kvíða og 49% láglaunakvenna upplifir klíníska streitu.

Rannsóknin sýnir sömuleiðis fram á að láglaunakonur meta líkamlega heilsu sýna verri en konur með hærri laun.

Hafa áhyggjur í vinnunni

Annað sem kemur fram í skýrslunni er að láglaunakonur eiga erfiðara með að aðskilja fjölskyldu frá vinnu.

„Við sjáum að á meðan að hálaunakonur eiga erfiðara með að samræma vinnumarkaðinn og fjölskylduna að því leiti til að vinnan er að koma heim með þeim þá er það í öfuga átt hjá lálaunakonum. Þær hafa áhyggjur og skuldbindingar tengdar fjölskyldunni trufla þær í starfi,“ útskýrir Berglind og bætir við:

„Við veltum því fyrir okkur hvort að það sé vegna þess að þær eiga erfiðara með að fá barnapössun, þær eiga erfiðara með að setja börnin sín í frístund eftir skóla, eiga erfiðara með að sinna tómstundum og eiga færri sem geta hjálpað þeim ef að það þarf að sækja barn í skólann til dæmis.“

Allt eru þetta þættir sem rannsóknin sýnir fram á en þar segir sömuleiðis að konur með lág laun eru líklegri en aðrar konur til að gera nokkuð eða miklu meira en sinn skerf af heimilisstörfum miðað við maka sinn.

Í höndum stjórnvalda og stéttarfélaga

Staða láglaunakvenna hefur áður verið rannsökuð á Íslandi minna hefur verið um að bera hópinn saman við aðrar konur. 

„Varða hefur mikið verið að skoða stöðu lálaunakvenna sérstaklega en við höfum ekki verið að sjá mikið að rannsóknum þar sem allur hópurinn er skoðaður og borið saman,“ segir Berglind.

Spurð hvort hún telji að skýrslan geti nýst í baráttunni fyrir félagslegum jöfnuði á Íslandi segir Berglind: „Já, ég myndi segja það en nú er það í höndum stjórnvalda og stéttarfélaganna að nýta þetta til að finna leiðir. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert