„Alvarlegt ef þetta er eigin ákvörðun“

Orlofsgreiðslur til fyrrverandi borgarstjóra koma borgarfulltrúum minnihlutans á óvart og …
Orlofsgreiðslur til fyrrverandi borgarstjóra koma borgarfulltrúum minnihlutans á óvart og segja þeir mörgum spurningum ósvarað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega tíu milljóna króna orlofsgreiðsla við starfslok Dags B. Eggertssonar fyrrverandi borgarstjóra kemur borgarfulltrúum minnihlutans á óvart. Er það almennt skoðun þeirra að hún sé ekki eðlileg og málið þurfi að skoða frekar. Orlof eigi auðvitað að nýta til að hvílast og endurhlaða sig.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, veltir því fyrir sér hvernig borgarkerfið virkaði ef allir starfsmenn borgarinnar, sem skipti þúsundum, gætu leyft sér að safna orlofsgreiðslum í tíu ár.

„Ég veit ekki til þess að öðru starfsfólki bjóðist slík starfslokakjör. Orlof á auðvitað að nýta til að hvílast og endurhlaða sig og ég myndi nú halda að borgarstjóri þyrfti á því að halda. Ef það er eigin ákvörðun að safna þessu upp í tíu ár og taka allt út í lokin, þá er það mjög alvarlegt,“ segir Kolbrún.

Þarf að skýra betur

Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri-grænna segir margt óljóst í þeim svörum sem hafa borist. Eins og til dæmis hver fylgist með því hvenær borgarstjóri sé í orlofi.

„Það sem er aðalatriðið í þessu er hvort þetta er með sambærilegum hætti og á við um aðra starfsmenn borgarinnar. Ef það er viðmiðið hjá borgarstjóra þá þarf þetta að vera skýrt frá upphafi og það held ég að hafi ekki verið. Mér finnst ekki ganga að borgin fái svona bakreikninga.“

Hún bendir á að starfsumhverfi og réttindi kjörinna fulltrúa séu með öðrum hætti en réttindi starfsmanna.

Ef þetta eigi við alla starfsmenn þá sé erfitt að bera þetta saman. Mjög skýr rammi sé í kringum starfsmenn borgarinnar, en ekki í þessu tilfelli, og ekki sé hægt að líkja borgarstjóra við almennan starfsmann á stimpilklukku. Það þurfi að skýra þetta betur í framhaldinu.

Sanna Magdalena Mörtudóttir borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins segir að í samhengi við almennt launafólk sé þetta mjög sérkennilegt og venjan sú að orlofið sé tekið út innan orlofsársins með einhverjum frávikum. „En ég hef aldrei vitað til að það sé hægt að safna þessu upp og í áratug eins og í þessu tilfelli,“ segir Sanna.

Sérstakur samningur gerður við ráðningu Einars

„Þetta tengist líka launum borgarstjóra og hversu há þau eru í samanburði við laun annarra starfsmanna. Ég hef talað fyrir því að það sé heildstæð launastefna hjá borginni og að borgarstjóri sé ekki á margföldum launum og það þurfi að endurskoða. Það er ekki eðlilegt að borgarstjóri fái tíu milljónir inn á reikninginn sinn við starfslok,“ segir Sanna.

Hún segir að gerður hafi verið sérstakur ráðningarsamningur við Einar Þorsteinsson þegar hann tók við sem borgarstjóri en hún viti ekki hvernig samning Dagur var með og hvort sá taki mið af kjarasamningi starfsmanna borgarinnar.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir borgarfulltrúi Viðreisnar kveðst ekki vilja draga neinn einn fram í umræðu um launamál starfsmanna borgarinnar, hvort sem það er fyrrverandi borgarstjóri eða aðrir. Hún leggur áherslu á að sömu reglur eigi að gilda fyrir alla.

Ábyrgðin hvílir á stjórnanda

Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis sagði í samtali við mbl.is í gær að það væri á ábyrgð stjórnandans að sjá til þess að orlofsmál væru í lagi.

Á mbl.is í gær sagði Þórarins Eyfjörð formaður Sameykis, stéttarfélags starfsmanna Reykjavíkurborgar, að tíu milljóna króna orlofsgreiðslur væru alltaf á ábyrgð stjórnenda.

„Ábyrgðin er hans. Allir stjórnendur í opinberum stöðum verða að sjá til þess að þeirra eigin orlofstaka sé með eðlilegum hætti þannig að jafnræðis sé gætt fyrir alla,“ segir Þórarinn. Hann segir það óvenjulega við orlofsgreiðslu Dags að hún nái svo langt aftur í tímann, tíu ár. „Þetta er lengri tími en við höfum séð hjá okkar félagsfólki en þetta gefur tóninn og er viðurkennt að ótekið orlof til lengri tíma sé gert upp með peningagreiðslu,“ segir Þórarinn. Hann kveðst líta á orlofsgreiðsluna sem fordæmisgefandi mál og að því verði haldið á lofti. „Við köllum eftir því að jafnréttis sé gætt gagnvart öllum launþegum, ekki bara sumum,“ segir Þórarinn.

Leitað var eftir viðbrögðum frá Degi B. Eggertssyni í gær en hann kvaðst ekki vera í símasambandi og óskaði eftir að fá spurningar skriflega. Svar hans hafði ekki borist þegar Morgunblaðið fór í prentun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert