Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri á menningar- og íþróttasviði Reykjavíkurborgar, segir óeðlilegt að KR-völlurinn sé í því ástandi sem hann er í í dag en að stefnt sé á að ljúka við lagfæringu eða endurnýjun á honum eins fljótt og auðið er.
Í gær var fjallað um að gervigrasvelli Knattspyrnufélags Reykjavíkur hefði verið lokað af öryggisástæðum en miklar skemmdir eru á vellinum.
Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR, sagði í samtali við mbl.is í gær að Reykjavíkurborg hefði verið meðvituð um gallana á vellinum strax frá upphafi en að ekkert hafði verið gert.
„Það er óeðlilegt að völlurinn sé í því ástandi sem hann er í í dag því hann er lagður í janúar 2022. Þannig það er greinilega um einhvern galla að ræða og það er bara verið að vinna að því með framleiðanda með hvaða hætti það verður unnið úr þessu,“ segir Steinþór í samtali við mbl.is.
Hann bætir við að gallar geti alltaf komið upp: „Menn segja að það geti alveg komið upp á að það sé einhver galli og það er eitthvað sem hefur gerst. Frá þessu fyrirtæki eru aðrir vellir sem hafa staðist og eru enn í notkun eftir mörg ár.“
Spurður hvenær úrbætur á vellinum munu eiga sér stað segir Steinþór:
„Við erum bara að tala um sem fyrst. Það er nú þannig að þetta er meira áberandi á hluta af vellinum en við erum að horfa til þess að hann verði allur lagfærður eða endurnýjaður. Það má ekki dragast og það er bara verið að vinna úr því að það geti orðið eins hratt og mögulegt er.“
Í fyrrnefndu viðtali við formann KR kom fram að völlurinn sé eini gervigrasvöllur félagsins og þar með eini völlurinn sem hægt sé að spila á yfir vetrarmánuðina.
Spurður hvort stefnt sé á að ljúka úrbótum á vellinum áður en að veturinn skellur á segir Steinþór: „Algjörlega, það er verið að vinna svoleiðis að það náist.“