Fer fram á þungan dóm yfir Pétri Jökli

Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Saksóknari fer fram á þungan dóm yfir Pétri Jökli Jónassyni fyrir aðild hans að stóra kókaínmálinu, eða að minnsta kosti sex og hálfs árs fangelsi.

Aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu lauk í dag með málflutningi Dagmarar Aspar Vésteinsdóttur saksóknara og Snorra Sturlusonar, verjanda Péturs.

Pétur Jökull er sakaður um til­raun til stór­fellds fíkni­efna­laga­brots með því að hafa, ásamt fjórum öðrum, reynt að smygla tæp­lega 100 kg af kókaíni til lands­ins frá Bras­il­íu. Efn­in voru fal­in í trjá­drumb­um og voru gerð upp­tæk í Rotter­dam í Hollandi og gervi­efn­um komið fyr­ir í staðin.

Í nóv­em­ber voru Birg­ir Hall­dórs­son, Páll Jóns­son, Jó­hann­es Páll Durr og Daði Björns­son dæmd­ir í fimm til níu ára fang­elsi í Lands­rétti.

Dagmar saksóknari telur að hlutverk Pétur Jökuls hafi verið álíka og Birgis, eða jafnvel umfangsmeira.

Snorri gagnrýndi rannsókn lögreglu og sagði ekkert tengja Pétur Jökul við málið. „Eina sem tengir Pétur við þetta mál eru kenningar lögreglu,“ sagði hann og bætti við að vinnubrögð lögreglu stæðist kröfur um vandvirkni né hlutleysi.

Framburður Daða mikilvægur

Dagmar hóf mál sitt á að segja að framburður Daða Björnssonar skipti mjög miklu máli. Hún sagði framburð hans hafa verið trúðverðugan og allt sem hann hefur sagt hefur staðist. Fyrir dómi sagðist Daði standa við fyrri framburð sinn. 

Daði var í samskiptum við einhvern Pétur. Fyrir dómi sagði hann hins vegar það ekki hafa verið Pétur Jökul.

Daði hitti manninn nokkrum sinnum í persónu og var í samskiptum við hann í gegnum síma. Daði lýst téðum Pétri sem stór­gerðum, þrekn­um og ljós­hærðum manni sem var oft klædd­ur í  jakka með Stone Is­land-merki. Pét­ur Jök­ull viður­kenndi fyr­ir dómi að hafa átt slík­an jakka.

Dagmar sagði lýsinguna passa við Pétur Jökul.

Snorri sagði lýsinguna geta passað við marga menn og að Pétur Jökull væri frekar í áttina að vera rauðhærður. „Þessi lýsing gæti átt við miklu fleiri aðila heldur en Pétur Jökul Jónasson,“ sagði Snorri á einum tímapunkti.

Snorri sagði Pétur Jökul frekar vera rauðhærðann.
Snorri sagði Pétur Jökul frekar vera rauðhærðann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagmar vísaði einnig til þess að Daði hefði sagt að Pétur byggi við kaffi Loka, en á þeim tíma leigði Pétur Jökull á Lokastíg. Snorri sagði að í skýrslutöku lögreglu yfir Daða hefðu þau orð komið upprunalega frá lögreglumanni, ekki Daða sjálfum.

„Lélegur feluleikur“

Þá vildi Snorri meina að einstaklingur sem hefur þann ásetning að fela sig fyrir lögreglu myndi ekki gefa upp rétt eiginnafn, annað væri „lélegur feluleikur“.

Því væri alls ekkert víst að rétta nafn mannsins væri Pétur yfir höfuð. Snorri sagði enga sönnun vera fyrir því að sá sem Daði var í samskiptum héti Pétur. Snorri sagði það „glannalegt“ að halda því fram.

Snorri sagði Daða vera lykilvitni í málinu gegn Pétri Jökli og að ákæruvaldið byggði málið nánast eingöngu á hans framburði. Hann ítrekaði að Daði sagði Pétur Jökul ekki vera manninn sem hann hefði verið í samskiptum við og að hann myndi þekkja þann mann ef hann sæi hann aftur.

Snorri sagði ekki um breyttan framburð að ræða hjá Daða né að hann hefði breytt neinu í frásögn sinni, „heldur er lögreglan einfaldlega með rangan mann“.

Þá benti Snorri á að Páll, Birgir og Jóhannes sögðust annað hvort ekki þekkja Pétur Jökul eða að hann væri ekki réttur maður.

200 skilaboð

Dagmar sagði að símagögn styddu einnig við tilgátu lögreglu. Meðal annars hefði Daði sagt að Pétur væri að baki notendanöfn sem hann var í samskiptum við á forritinu Signal.

Í málsgögnum eru meira en 200 skilaboð á milli Daða við notandann „Harry“. Þar er meðal annars rætt undirbúning fyrir komu fíkniefnanna.

Á sama tíma ræðir Harry við Sverri Þór Gunnarsson, betur þekktur sem Sveddi Tönn, um fíkniefnaviðskipti.

Upptakan umdeild

Eitt af lykilsönnunargögnum í málinu er upptaka lögreglu af Daða tala við mann í síma er hann var að meðhöndla efnin í húsnæði í Gjáhellu í Hafnarfirði.

Danskur sérfræðingur í raddgreiningu taldi líklegt að rödd Péturs heyrðist á upptökunni og þá sagði lögreglumaður fyrir dómi hann vera viss um það sama.

Snorri sagði upptökuna óskýra og það vera með ólíkindum að fullyrða um slíkt þar sem varla heyrðist í manninum á upptökunni.

Þá sagði hann rannsókn sérfræðingsins að mörgu leyti huglæga og því ekki hægt að nota hana líkt og DNA–sýni eða fingrafar.

Snorri sagði sönnunarildi skýrslunnar að hans mati því vera „nákvæmlega ekki neitt“.

Þá gerði hann athugasemd við það að upptökurnar sem sérfræðingurinn hafði til samanburðar voru úr skýrslutökum hjá lögreglu þar sem Pétur Jökull neitaði að tjá sig.

Æfing í World Class

Þá tókust Snorri og Dagmar um samskipti á milli Daða og Harry um að sá síðarnefndi ætlaði á æfingu. Sama dag fór Pétur Jökull í World Class í Laugum.

Snorri benti á að símagögn gáfu ekki tilkynna að Harry hefði verið í Laugardalnum. Hann sagði kenningu lögreglu því ómarktæka. 

Dagmar benti hins vegar á að Pétur Jökull hefði getað skilið eftir símann eða tekið með sér annan síma á æfinguna.

Neðstur í goggunarröðinni

Dagmar sagði að miðað við sönnunargögnin ætti að horfa til þess að neitun Daða að hann hefði verið í samskiptum við Pétur Jökul sé ótrúverðug.

Þá sé mikilvægt að líta til þess að Daði hefði verið neðstur í goggunarröðinni og hugsunin sú að „fórna“ honum.

Hann var sá sem tók húsnæði að leigu, meðhöndlaði efnin og átti að koma þeim áfram, ólíkt hinum sakborningunum.

Dagmar sagði Pétur Jökul hafa fengið Daða til verksins og stýrt honum í einu og öllu, m.a. útvegað honum síma og fjármuni. Daði hefði því engra kosta völ en að neita þegar hann var spurður fyrir dómi hvort Pétur Jökull væri rétti maðurinn.

Tólf atriði

Dagmar sagðist geta nefnt að minnsta kosti tólf atriði sem benda til þess að Pétur Jökull hafi átt aðild að málinu, þar á meðal lýsing Daða á útliti hans, æfingin í World Class, ferðalög hans til Íslands, Spánar, Brasilíu og Taílands og að hann hefði þekkt Daða og Birgi og verið í samskiptum við þá.

Snorri var ekki sammála og sagðist varla geta fallist á eitt atriði sem tengdi Pétur Jökul við málið.

Dagmar sagði mikilvægt að horfa á heildarmyndina.

Snorri nefndi að ákæruvaldið hefði ekki skýrt hvað Pétur Jökull hefði verið að gera í Brasilíu og hver aðkoma hans að gáminum með fíkniefnunum hefði átt að vera.

Í andsvörum sínum sagði Dagmar að í svo stórum og umfangsmiklum fíkniefnamálum hefði lögregla aldrei allar upplýsingar og gæti ekki vitað um málsatvik frá a til ö. 

Neitar sök

Líkt og áður sagði telur ákæruvaldið hlutverk Péturs hafa verið álíka, ef ekki meira, en Birgis, þ.e.a.s. að stýra undirmönnum, og því ætti refsing að vera sambærileg. Birg­ir hlaut átta ára dóm í héraði en dómurinn var mildaður í sex og hálft ár í Lands­rétti.

Dagmar sagði einnig mikilvægt að líta til þess að fjórmenningarnir játuðu brot sitt að hluta, en það hefur Pétur Jökull ekki gert.

Hún sagði hann ekki eiga sér neinar málsbætur fyrir utan að hafa komið til Íslands frá Taílandi í samráði við íslensku lögregluna eftir að lýst var eftir honum á vefsíðu Interpol.

Snorri sagði engin skynsamleg rök fyrir því að sakfella Pétur Jökul og því bæri að sýkna hann.

Gæslu­v­arðhalds­úrsk­urður yfir Pétri Jökli renn­ur út 5. sept­em­ber.

Snorri Sturluson verjandi Péturs.
Snorri Sturluson verjandi Péturs. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert