Mennta- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að flýta innleiðingu nýs námsmats og um leið gera það skyldubundið fyrir þrjá árganga grunnskóla.
Þetta má ráða af drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um grunnskóla, sem ráðuneytið kynnti í dag til umsagnar og eru reifuð hér neðar.
Um er að ræða afnám samræmdu könnunarprófanna fyrir fullt og allt, sem ekki hafa verið lögð fyrir á undanförnum árum eftir að ráðherra gafst upp á því.
Í stað þeirra komi nýtt námsmat, svokallaður matsferill, eins og mbl.is og Morgunblaðið hafa fjallað um undanfarnar vikur.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að frumvarpsdrögin séu byggð á stefnumótunarvinnu sem fram hafi farið undanfarin ár, þar á meðal skýrslu um framtíðarstefnu um samræmt námsmat frá árinu 2020.
„Þá hefur farið fram víðtækt samráð síðastliðin ár, þar á meðal við fagfólk í málaflokknum, foreldra og börn,“ fullyrðir ráðuneytið.
Sú ákvörðun ráðherra að afnema samræmdu prófin hefur mætt mikilli gagnrýni. Sömuleiðis þær tafir sem orðið hafa á samræmdu mati í þeirra stað.
Ekki síður svör skólayfirvalda um hvað felast muni í nýju námsmati, sem mörgum hafa þótt óljós.
Þar á meðal eru fyrrverandi menntamálaráðherra og fræðafólk við menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Hefur ráðherrann Ásmundur Einar Daðason meðal annars verið sakaður um uppgjöf og umboðsmaður barna krafið hann um svör í ljósi óvissu um fyrirhugað námsmat.
Þá hefur hann um nokkurt skeið trassað að skila skýrslum um framkvæmd skólastarfs í grunn- og framhaldsskólum landsins, sem honum ber lögum samkvæmt að gera.
Í frumvarpsdrögunum er boðuð sú breyting að fela ríkinu ábyrgð á því að tryggja grunnskólum til matstæki.
Er breytingin sögð til samræmis við ný lög um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, sem stofnuð var fyrr á þessu ári og á að vera hluti af lausn við vanda íslenska skólakerfisins.
Tekið er fram að hlutverk þessa fyrirhugaða matsferils eigi að vera tvíþætt.
Annars vegar eigi hann að „tryggja heildstæða og skýra mynd af stöðu hvers barns í námi og framförum þess jafnt og þétt yfir skólagönguna, m.a. með að markmiði að það fái viðeigandi kennslu og stuðning þegar þörf er á“.
Til þess eigi skólar að fá aðgang að fjölbreyttum matstækjum og verkfærum.
„Upplýsingarnar sem við það skapast eiga jafnframt að nýtast nemendum og forráðamönnum þeirra og stuðla að samtali og trausti í samstarfi heimila og skóla um nám við hæfi hvers og eins barns.“
Hins vegar eigi matsferillinn að „afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild, með skyldubundnu samræmdu námsmati, þannig að stefnumótandi aðilar, sem og aðrir, geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir, bæði í einstökum sveitarfélögum og á landsvísu“.
Í tilkynningu ráðuneytisins segir að með frumvarpinu séu lagðar til breytingar á skyldubundnu samræmdu námsmati, sem verði hluti nýja matsferilsins.
Þannig verði það „samtengt virku mati skóla á stöðu og framvindu barns, með það að leiðarljósi að það mat nái frekar tilætluðum samfélagslegum markmiðum og hægt sé að nýta gögn úr því með markvissari hætti“.
Í stað þess að leggja samræmd könnunarpróf fyrir 4. og 7. bekk og svo einu sinni á unglingastigi í íslensku, stærðfræði og ensku, verði skilgreint skyldubundið samræmt námsmat í 4., 6. og 9. bekk í íslensku og stærðfræði.
Gert er ráð fyrir því að innan þessara námsgreina rúmist undirgreinar, t.d. að innan íslensku rúmist lesskilningur og íslenska sem annað mál.
Óljóst hefur þótt til þessa hvort og þá hvaða hluti matsferilsins verði skyldubundinn. Hafa skólayfirvöld meðal annars verið margsaga um það atriði.
Einnig er lagt til að bráðabirgðaákvæði verði bætt við lög um grunnskóla, um að þetta samræmda námsmat standi öllum skólum til boða skólaárið 2025-2026 og verði tilbúið til skyldubundinnar notkunar um allt land skólaárið 2026-2027.
Þetta er töluvert fyrr en áætlanir skólayfirvalda hafa borið með sér til þessa, en þær hafa raunar hljóðað á ýmsa vegu.
Mikilvægt sé að tryggja skólasamfélaginu markvissan stuðning við innleiðingu matsferilsins, bæði þess hluta sem er valfrjáls og þess sem er skyldubundinn, og verði það í höndum stofnunarinnar.
Auk þessa er lagt til að námsmat í öðrum greinum en íslensku og stærðfræði fari fram samkvæmt ákvörðun ráðherra.
„Með því er gert ráð fyrir að hægt sé síðar, eftir þörfum, að leggja fyrir samræmt námsmat í fleiri bekkjum og greinum eins og ensku og náttúrufræði,“ segir í tilkynningunni.
Þá er tekið fram að talið sé nauðsynlegt að kveða á um heimild ráðherra til að fella niður samræmt námsmat vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. Þá sé einkum litið til aðstæðna sem skapast hafi í faraldri kórónuveirunnar og vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ.
Lagt er til að stofnuninni verði falin vinnsla gagna til að tryggja að ráðherra, sem og sveitarfélög, skólar og aðrir viðeigandi aðilar hafi nægar upplýsingar um stöðu skólastarfs hér á landi.
Einnig er lagt til að ráðherra beri skylda til að birta reglulega ópersónugreinanlegar upplýsingar um stöðu skólastarfs með opinberum hætti í þeim tilgangi.
Loks er fullyrt að matsferill hafi verið þróaður í nánu samráði við skólasamfélagið, þar sem leitað hafi verið eftir sjónarmiðum nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda og annarra hagsmunaaðila, innan skólakerfisins sem og utan.
Lagt sé upp með að úr „verði hagnýtt verkfæri sem styðja muni við skólastarf og verða grunnurinn að öflugra menntakerfi þegar fram líða stundir“.
Gefinn er rétt rúmlega tveggja vikna frestur til umsagna, eða litlu lengri frestur en gefinn var fyrr í sumar um sama mál. Lágmarksfrestur er tvær vikur samkvæmt reglum samráðsgáttarinnar.
Afréð ráðherra að framlengja þann frest eftir gagnrýni fræðafólks.