Hafa ekki efni á skólamáltíðum

Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður …
Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ og Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB. Samsett mynd

Forseti ASÍ og formaður BSRB telja að ný skýrsla um stöðu láglaunakvenna á Íslandi eigi eftir að nýtast í baráttunni fyrir félagslegum jöfnuði á Íslandi. Þau segja tengsl milli tekna og annarra þátta á borð við heilsu skýr og leggja áherslu á að stjórnvöld standi við loforð um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Í morgun var kynnt ný skýrsla fræðikvenna við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, Há­skóla Íslands og Vörðu – rann­sókna­stofn­un­ar vinnu­markaðar­ins um stöðu láglaunakvenna á Íslandi. 

Þar kom meðal annars fram að láglaunakonur séu mun lík­legri en há­launa­kon­ur til að upp­lifa al­var­leg ein­kenni kvíða, streitu og þung­lynd­is, þær séu almennt með minna bakland, margar þeirra upplifi efnislegan skort og þurfi að neita sér um ýmsa þjónustu. 

Nýtist í baráttunni

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður BSRB segir niðurstöðurnar ekki beint koma sér á óvart en að í þeim felist ákveðin staðfesting sem komi til með að nýtast í stéttabaráttu í landinu.

„Þetta staðfestir það sem hefur komið fram í rannsóknum Vörðu og við höfum verið að benda á. Þó við höfum það að meðaltali gott þá eru hópar innan hópanna sem við þurfum sérstaklega að grípa utan um. Það sem er verið að draga mjög sterkt fram líka eru þessi sterku tengsl milli fjárhagsáhyggja og áhyggja af börnunum sínum og einkenni þunglyndis, kvíða og streitu,“ segir Sonja Ýr og bætir við að í þessum þáttum felist mikill kostnaður fyrir samfélagið.

„Það má ekki gleyma því að sá hópur samfélagsins sem er enn þá mest útsettur fyrir fátækt eru börn og það þarf að grípa utan um þau í gegnum foreldrana,“ segir Sonja. 

Engin von um breytingar

Spurð hvort að eitthvað í niðurstöðunum hafi sérstaklega staðið upp úr segir Sonja: „Það sem mér fannst erfiðast að sjá er að þau sem taka þátt í könnuninni sjá engar líkur á því að hagur þeirra vænkist. Þannig það er engin von um breytingar.“

Þá nefnir hún sérstaklega skólamáltíðir og annan kostnað tengdan skólasókn barna en rannsóknin sýnir fram á að 7% láglaunakvenna hafi ekki efni á skólamáltíðum fyrir börnin sín, 10% eigi ekki fyrir kostaði við skólaferðalög og 12% eigi ekki fyrir nauðsynlegum fatnað á börnin.

„Í síðustu kjarasamningum lögðum við mesta áherslu á þennan hóp og aðgerðir stjórnvalda voru í raunveruleg til að styðja við barnafjölskyldur. Eitt af stóru atriðunum þar voru auðvitað skólamáltíðir og nú út frá þessari umræðu með skólamáltíðirnar, námsgögn og annað sjáum við það bara svo skýrt í þessari rannsókn hvað þetta skiptir ótrúlega miklu máli.“

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, skrifaði nýlega skoðanapistil í Morgunblaðið þar sem hún setti spurningarmerki við gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum og nokkur umræða skapaðist í kjölfarið.

Börn verði ekki greind út frá tekjum foreldra

Í samtali við mbl.is tók Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ í svipaðan streng og Sonja er varðar skólamátíðirnar en hann leggur áherslu á að börn séu ekki greind í sundur út frá tekjum foreldra.

„Í síðustu kjarasamningum vorum við að reyna að létta á barnafjölskyldum og láglaunafjölskyldum til dæmis með fríum skólamáltíðum og það skiptir bara verulegu máli að það verði staðið við það að fríar skólamáltíðir verði fyrir alla og að það sé ekki verðið að greina börn út frá tekjum foreldra inni í skólunum,“ segir Friðbjörn.

Hann er viss um að alþýðusambandið muni koma til með að nýta skýrsluna í baráttu sinni en hann talar um að hún sýni fram á hvað tekjur hafa mikil áhrif á alla þætti lífsins.

„Þetta segir mér að það að við þurfum að halda áfram því sem við höfum verið að gera í síðustu kjarasamningum, hækka lægstu launin sérstaklega. Við þurfum að spýta í lófana hvað það varðar og gera enn betur,“ segir Finnbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert