Hagnaður Landsvirkjunar dregst saman um 38%

Hagnaður Landsvirkjunar dróst saman um 38% milli ára á fyrri árshelmingi, en hann nam alls 70,5 milljónum dala, eða sem nemur um 9,7 milljörðum króna, samanborið við 114 milljónir dala á sama tímabili á síðasta ári. 

Þetta kemur fram í uppgjöri fyrirtækisins vegna fyrri árshelmings.

Hagnaður af grunnrekstri nam 143,4 milljónum dollara á tímabilinu, sem svarar um 19,9 milljörðum króna, og minnkar hagnaður á árshelmingnum um 27% á milli ára. Með hagnaði af grunnrekstri er átt við hagnað áður en tekið er tillit til óinnleystra fjármagnsliða, svo sem gangvirðisbreytingar afleiða og gjaldeyrismun, sem og tekjuskatts.

Handbært fé frá rekstri lækkar um 40,5%

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu 279,1 milljón dala, sem samsvarar um 38,8 milljörðum króna, samanborið við 331,8 milljónir dala á sama tímabili í fyrra. Þar munar mestu um raforkusölu en selt magn rafmagns nam 3,4 TWst og lækkaði um 5,7% en tekjur af raforkusölu lækkuðu um 9,1% og námu ríflega 35 milljörðum króna.

Eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar stóð í 62,2% en eignir félagsins voru bókfærðar á um 492 milljarða króna í lok júní og skuldir á um 186 milljarða króna.

Handbært fé nam 17,7 milljörðum í lok tímabilsins og lækkaði um 19% milli ára. Þar hefur áhrif að handbært fé frá rekstri, sem nam 22,7 milljörðum, lækkaði um 40,5%, auk þess sem arðgreiðsla var umtalsvert hærri í ár en á síðasta ári eftir umleitanir ráðherra þar um. Á móti vegur að afborganir af langtímaskuldum voru umtalsvert lægri en á fyrri hluta síðasta árs.

Arðsemi eiginfjár síðustu 12 mánaða, það er að segja frá júlí 2023 til júní 2024, reyndist 7,3%, samanborið við 6,2% á sama tímabili ári fyrr.

Erfið staða í vatnsbúskap

Haft er eftir Herði Arnarsyni forstjóra Landsvirkjunar í tilkynningu að þröng staða í vatnsbúskap hafi setti mark sitt á reksturinn á fyrri hluta ársins.

„Tekjur af raforkusölu drógust saman vegna skerðingar á afhendingu rafmagns af þeim sökum, auk þess sem verðtenging við Nordpool-markaðinn í samningi við einn stórnotanda féll niður í lok síðasta árs. Þá lækkuðu innleystar áhættuvarnir frá fyrra ári, sem hafði áhrif til tekjulækkunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert