„Hræðilegt slys“

Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði.
Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Vigdís Diljá Óskarsdóttir, samskiptastjóri Alcoa Fjarðaáls, segir ákveðna ferla fara í gang hjá fyrirtækinu þegar slys verði á fólki.

Starfsmaður fyrirtækisins slasaðist alvarlega í síðustu viku eftir að hafa lent undir afturdekki rútubifreiðar sem fer með starfsfólk í og úr vinnu.

Sigrún Erla Ólafsdóttir var á leið heim úr vinnu eftir kvöldvakt. Er hún var að fara út úr rútunni lokaðist hurðin á hana. Sigrún féll út út rútunni og afturdekk rútunnar fóru yfir fætur hennar.

Til rannsóknar hjá lögreglu.

Sigrún var flutt með sjúkraflugi til Akureyrar en hún brotnaði á báðum fótum og gekkst undir aðgerð á vinstri fæti.

„Þetta var auðvitað hræðilegt slys og það hófst þegar í stað rannsókn hér innanhúss eins og alltaf gerist þegar það verða slys á fólki. Það fara af stað ákveðnir ferlar, meðal annars rannsókn á tildrögum slyssins og finna fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að sambærilegt geti endurtekið sig,“ segir Vigdís Diljá í samtali við mbl.is. 

Hún segir að Alcoa hafi verið í góðum samskiptum við Sigrúnu og fjölskyldu hennar og hafi veitt lögreglunni allar þær upplýsingar sem hún hafi óskað eftir en málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

„Við erum í góðum samskiptum við Sigrúnu og fjölskyldu hennar. Öryggi og velferð starfsfólks okkar hefur allt verið forgangsatriði númer eitt hjá Alcoa,“ segir Vigdís.

Þarf að komast að því hvað gerðist

Rútufyrirtækið ÍS-Travel er verktaki hjá Alcoa og sér um akstur á starfsfólkinu.

„Þetta var hræðilegt slys og við hörmum það. Þessi atburður er í ferli hjá okkur, Alcoa og öðrum sem koma að þessu. Það þarf að komast að því hvað gerðist og fyrirbyggja að slíkur atburður gerist aftur,“ segir Ívar Sæmundsson, framkvæmdastjóri ÍS-Travel, við mbl.is.

Hann segir að ökumaður rútunnar hafi farið í stutt leyfi eftir slysið en sé kominn til starfa á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka