Míla hf. íhugar að kæra ákvörðun Fjarskiptastofu til úrskurðarnefndar um fjarskiptamál.
Þetta kemur fram í athugasemd sem Míla hf. sendi mbl.is í kjölfar þess að greint var frá því að Fjarskiptastofa hefði ákveðið að sekta Mílu hf. um þrjár milljónir króna fyrir brot á upplýsingaskyldu sinni til Fjarskiptastofu.
Málið snýst um að Míla hafi ekki upplýst Fjarskiptastofu um fyrirliggjandi kaupáform félagsins á ljósleiðaraneti Skaftárhrepps fyrr en eftir að þau höfðu gengið um garð þrátt fyrir ítrekaðar leiðbeiningar af hálfu Fjarskiptastofu til Mílu hf.
Saknæmisstig háttseminnar var metið talsvert hátt, að því er segir í ákvörðun Fjarskiptastofu.
„Míla telur sig ekki hafa brotið gegn upplýsingaskyldu með meintri rangri og ófullnægjandi upplýsingagjöf til Fjarskiptastofu. Það er til skoðunar sem stendur hjá Mílu að kæra ákvörðun Fjarskiptastofu til úrskurðarnefndar um fjarskiptamál,“ segir í athugasemd frá Mílu.