Samfylkingin styður við uppbyggingu nýs fangelsi á Litla-Hrauni en ráðast þarf í ýmsar aðrar aðgerðir strax haust. Bæta þarf öryggi fangavarða og fanga eins og til dæmis með því að bæta þjálfun og menntun fangavarða.
„Við vitum að það er þannig ástand í fangelsunum að það þýðir ekki að bíða fram að næstu kosningum varðandi stefnumótum. Það þarf að ráðast í ákveðin úrræði strax í haust,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is.
Á dögunum fór hún ásamt Loga Einarssyni, þingflokksformanni Samfylkingarinnar, í vettvangsferð á Litla-Hraun og Hólmsheiði en staða fangelsismála hefur verið mikið rædd síðustu mánuði.
„Reksturinn á fangelsum er orðinn mjög þungur og okkur þótti mikilvægt að fara og kynna okkur aðstæður í persónu. Ekki bara að hitta stjórnendur heldur líka að hitta starfsfólkið – fólkið á gólfinu – og þar sem kostur var á, líka fanga.”
Kristrún segir að öryggi fanga og fangavarða sé ekki tryggt og að þá þurfi að tryggja að fangaverðir geti fengið viðunandi menntun.
Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á síðasta ári kom fram að frá því að starfsemi Fangavarðaskólans í fyrri mynd var lögð af árið 2014, standist menntun og fræðsla nýrra fangavarða ekki lögbundnar kröfur.
Kom þá fram að misbrestur á gæðum fagmenntunar í fangavarðafræðum geti ógnað öryggi fangavarða, fanga og annars starfsfólks er við kemur fangelsum.
„Staða fangelsanna er óboðleg. Í fyrsta lagi þá er öryggi ekki tryggt sem er mjög alvarlegt. Það er auðvitað bæði alvarlegt fyrir fanga og fangaverði og það var mjög skýrt í samtölum okkar við fangaverði að þeir upplifa – eins og maður heyrir reyndar víða í almannaþjónustu en er mjög alvarlegt í þessu tilviki – að þeir geta ekki sinnt sínu starfi almennilega,” segir hún.
Hún nefnir að ef öryggi sé ekki tryggt þá séu ekki undirstöður til staðar fyrir menntun og betrun. Það skapi ákveðinn vítahring.
Hún segir að Samfylkingin styðji við uppbyggingu nýs fangelsis á Litla-Hrauni en að önnur vandamál séu til staðar sem krefjist úrbóta strax í haust.
„Það vantar augljóslega að bæta aðbúnað fólks í fangelsunum, bara út frá rekstri, strax í dag. Við heyrðum til að mynda mikla umræðu um stöðuna í fangavarðaskólanum og mikilvægi þess að fólk fengi fullnægjandi þjálfun sem hefur ekki verið í boði að undanförnum árum vegna skorts á rekstrarfé.“
Páll Winkel fangelsismálastjóri sagði í samtali við mbl.is í sumar að skandinavíska fangelsismódelið væri í hættu vegna áhrifa skipulagðrar glæpastarfsemi og aukinnar hörku. Nefndi hann að það blasti við að föngum myndi fjölga á næstu árum.
Meðalbiðtími eftir afplánun er eitt ár og 10 mánuðir og á þriðja hundrað manns eru á boðunarlista til afplánunar fullnustu refsinga.
Kristrún segir algjörlega óboðlegt að dómar vegna alvarlegra brota fyrnist vegna langs biðtíma. Hún vonast til þess að staðan batni með tilkomu nýs fangelsis en segir að það sé langt í það klárist.
Þá hefur hún áhyggjur af plássleysi. Segir hún að það aukna fjármagn sem hefur verið varið í sérstök verkefni innan löggæslunnar, eins og til dæmis í kynferðisbrot og auðgunarbrot, hafi ekki skilað sér í samsvarandi fjármagni í afplánunina.
„Þannig það er að fjölga kannski dómum eða brotum sem eru að koma upp, en það eru ekki afleiðingar af því vegna þess að brot eru að fyrnast,“ segir hún.
Hún segir að húnsæðisstaðan hafi meðal annars valdið því að það hefur ekki verið pláss né fjármagn til að sinna fullnægjandi sálgæslu og virkniúrræðum sem hún segir mikilvæga liði í skandinavíska fangelsismódelinu.
„En ég legg áherslu á það að öryggismálin eru númer eitt, tvö og þrjú á þessum tímapunkti myndi ég segja. Það skiptir auðvitað máli að leggja áherslu á betrunina og húsakostinn en það er mjög alvarlegt að okkar mati að fólk sem starfar í fangelsunum upplifi sig á ákveðnum tímum ekki öruggt. Þetta skapar auðvitað líka hættu fyrir fanga,“ segir hún og bætir við:
„Þetta er eitthvað sem er hægt að laga með betra skipulagi, með auknu fjármagni til að mynda inn í menntamál hjá fangavörðum og að styrkja fangavarðanámið, og líka gera þeim kleift að manna þessar stofnanir.“
Hún segir að fangaverðir hafi tjáð þeim það að það vanti inn heila kynslóð af nýjum fangavörðum. Þetta þurfi að laga meðal annars með því að bæta menntun, þjálfun og öryggi fangavarða.
„Staðan sem er upp komin í dag, hvað þetta varðar, er þess eðlis að eftir einhvern tíma þá verður ekki aftur snúið. Það er okkar skoðun að við getum ekki þolað fjögur ár í viðbót af þessu skipulagi, það þarf eitthvað að gerast núna á þessu ári þrátt fyrir að við séum að fara inn í kosningar.“
Þarf ekki að fjölga fangelsum til lengri tíma litið?
„Það er auðvitað ekki óeðlilegt að því sem þjóðinni fjölgar að því fylgi fleiri fangelsispláss,“ svarar Kristrún.
Hún nefnir að fjölgunin stafi líka af auknum gæðum í löggæslu. Þegar verið sé að styrkja ákveðin verkefni þá komi upp sú staða að það eru fleiri einstaklingar sem bíða afplánunar.
„Ég held að það sé gífurlega mikilvægt horfast í augu við það að það þarf að fjölga fangelsisplássum, vegna þess að eins og sakir standa mjög lítið sem getur komið upp á. Það er ekki hægt að vera með fulla nýtingu alls staðar í þessum fangelsum. Síðan eru auðvitað bara mismunandi einstaklingar sem um ræðir,“ segir hún og nefnir sérstaklega stöðu kvenkyns fanga sem geta ekki verið í sömu vistun og karlmenn.
Hún segir að Samfylkingin muni beita sér fyrir því að tekið verði á þessum málum í næstu fjárlögum.
„Það er ekki nóg að segjast ætla byggja nýtt fangelsi á næsta kjörtímabili, það þarf eitthvað að gerast núna.“