Bandaríski verðlaunablaðamaðurinn Richard Stellar er kominn hingað til lands í pílagrímsferð. Ástæðan fyrir heimsókninni er ekki aðeins til að skoða landið heldur fann hann lækningu við krabbameini sínu í gegnum tónlist Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, tónlistarmanns og tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar. Þessu eru læknar hans sammála.
Blaðamaður hitti Stellar og Þorvald Bjarna þar sem rætt var um tónlistina og hvernig hún hjálpaði Stellar í baráttunni við krabbameinið en hann er í dag krabbameinslaus.
Stellar greindist með gallrásarkrabbamein fyrir nokkrum árum og var honum tjáð að hann ætti ekki miklar líkur á að ná sér eða um 5 prósent líkur. Honum var ráðlagt af læknum sínum að leita í tónlist til að hugleiða.
Stellar var búinn með 12 vikur af sex mánaða strangri krabbameinsmeðferð þegar hann rakst á lagið Awaken með Jon Anderson og Todmobile sem var flutt í Hörpu árið 2013. Stellar lýsir því að þegar hann hlustaði á lagið hafi hann fengið uppljómun.
„Þegar ég hlustaði á lagið þá táraðist ég. Ég hlustaði á það aftur og ég fann eitthvað innra með mér [...]. Ég fann að þetta lag hafði eitthvað afl sem myndi gera mér gott,“ segir hann.
Stellar hefur skrifast á við bæði Þorvald og Anderson síðan hann uppgötvaði lagið og segja þeir báðir að þessi tiltekni flutningur hafi verið ótrúlegur. Þeir segjast sjálfir hafa fengið einhvers konar uppljómun við flutninginn.
Hér má sjá flutninginn í heild sinni.
Ítarlegri umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, föstudag.