Landsvirkjun gerir tilboð í Toppstöðina

Landsvirkjun hefur gert Reykjavíkurborg óskuldbindandi tilboð í Toppstöðina í Elliðaárdal, …
Landsvirkjun hefur gert Reykjavíkurborg óskuldbindandi tilboð í Toppstöðina í Elliðaárdal, með það í huga að starfrækja þar höfuðstöðvar sínar. Ljósmynd/Landsvirkjun

Landsvirkjun hefur gert Reykjavíkurborg óskuldbindandi tilboð í Toppstöðina í Elliðaárdal, með það í huga að starfrækja þar höfuðstöðvar sínar.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Landsvirkjunar en þar segir að húsið hafi verið í eigu Landsvirkjunar á árunum 1965-2008. Toppstöðin er ein nokkurra kosta sem Landsvirkjun er að íhuga nánar. 

„Um aldamótin kannaði Landsvirkjun möguleikann á nýjum höfuðstöðvum við Rafstöðvarveg 4, en á þeim tíma hugðist Reykjavíkurborg rífa húsið. Þar sem Reykjavíkurborg hefur nú hætt við þau áform ákvað Landsvirkjun að kanna þennan möguleika betur,“ segir í tilkynningunni.

Höfuðstöðvarnar rýmdar vegna myglu

Fram kemur að Landsvirkjun hafi þurft að rýma höfuðstöðvar sínar við Háaleitisbraut 68 á síðasta ári, eftir að mygla greindist í húsinu og hefur nú verið ákveðið að selja það. 

„Tilboð Landsvirkjunar er tvenns konar. Annars vegar kaup á Toppstöðinni sjálfri en einnig kaup á lóð undir bílastæði þar sem núverandi lóð býður ekki upp á stæði fyrir starfsfólk og gesti. Með áætluðum gatnagerðargjöldum þá er tilboðið um 725 milljónir kr.,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Þá gerir tilboðið ráð fyrir að ásýnd Toppstöðvarinnar verði færð nær upprunalegu útliti frá 1948 og áhersla verði á að halda í sögulegt svipmót byggingarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert