Leitar ökumanns sem ók á unglingsstúlku

Ekið var á stúlkuna þegar hún gekk um Vatnsendaveg í …
Ekið var á stúlkuna þegar hún gekk um Vatnsendaveg í Kópavogi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns bifreiðar sem ók á unglingsstúlku á Vatnsendavegi í Kópavogi við Ögurhvarf um þrjúleytið í fyrradag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þar segir að stúlkan hafi verið að ganga ásamt vinkonu til vesturs og yfir Vatnsendaveg þegar bifreið var ekið suður götuna og á stúlkuna.

Þá hafi stúlkan hafnað á vélarhlíf bifreiðarinnar og síðan runnið af henni. Ökumaðurinn skeytti því engu og hafi ekið rakleiðis af vettvangi.

Enginn sá ástæðu til að athuga með líðan stúlkunnar

Lögreglan segir töluverða umferð hafa verið þarna á þessum tíma en að enginn hafi séð ástæðu til að stöðva og athuga með líðan stúlkunnar.

Hún fór til síns heima eftir slysið, lét foreldra sína vita og í framhaldinu höfðu þeir samband við lögreglu. Stúlkunni var jafnframt komið undir læknishendur en frekari upplýsingar um meiðslin liggja ekki fyrir.

„Lögreglan biður umræddan ökumann um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Upplýsingum um málið má sömuleiðis koma á framfæri í tölvupósti á netfangið sigrun.jonasdottir@lrh.is,“ segir í lok tilkynningarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert