Menningarnótt: Hér verða lokanir

Hér má sjá kort yfir svæðið. Í fréttinni sjálfri er …
Hér má sjá kort yfir svæðið. Í fréttinni sjálfri er svo tengill sem sýnir ítarlegri upplýsingar. Kort/Reykjavíkurborg

Menningarnótt verður haldin 24. ágúst og þá verður miðborgin ein allsherjar göngugata. Lokað verður fyrir umferð bifreiða frá kl. 7:00 að morgni til 1:00 eftir miðnætti. Þessar lokanir má sjá nánar hér. 

„Lokunin tryggir öryggi gangandi og akandi vegfarenda á þessum fjölsóttasta hátíðardegi ársins. Gestir Menningarnætur eru hvattir til að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að komast á hátíðarsvæðið,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þá segir, að þeim sem þurfa að koma á einkabíl sé bent á að nota bílastæði við Borgartún og í Laugardalnum þar sem ókeypis skutlur aki fólki til og frá hátíðarsvæðinu frá kl. 7:00 til 00:30.

„Eins og lög gera ráð fyrir verður sektað fyrir ólöglegar bifreiðastöður og þeir bílar sem hindra aðgengi lögreglu, sjúkrabíla og slökkviliðs verða dregnir í burtu svo unnt sé að tryggja aðgengi þessara öryggisaðila ef óhapp ber að,“ segir enn fremur. 

Miðborgin verður ein allsherjar göngugata á Menningarnótt.
Miðborgin verður ein allsherjar göngugata á Menningarnótt. mbl.is/Árni Sæberg

Strætó 

„Borga þarf almennt fargjald í strætó yfir daginn og aukin tíðni ferða verður á meðan hátíðardagskráin er í gangi.

Hægt verður að sjá biðstöðvar sem stoppað verður á í tímatöflu allra leiða á heimasíðu straeto.is. Leiðarvísirinn verður uppfærður og þannig hægt að skoða tímatöflur og ferðir yfir daginn.

Borga þarf næturgjald í næturstrætó sem tekur við um klukkan 1:00 en handhafar mánaðar- og árskorta geta notað kortin sín um borð í næturstrætó,“ segir jafnframt í tilkynningunni. 

Kort/Reykjavíkurborg

Frítt í Strætóskutlur 

„Skutlur“ á vegum Strætó í boði Reykjavíkurborgar munu aka milli Laugardalshallar og Hallgrímskirkju milli kl. 07:30 – 00:30. Frítt verður í skutlurnar.

Rafskútur

„Fólk er eindregið hvatt til að nýta sér rafskútur, sem eru vistvænn samgöngumáti, til að komast til og frá miðborginni á Menningarnótt.

Í samráði við rafskútufyrirtækin verður hámarkshraði rafskútnanna lækkaður í miðborginni á Menningarnótt, auk þess sem aðeins verður hægt að hefja og enda ferðir á ákveðnum stæðum í miðborginni.“

Borga þarf almennt fargjald í strætó yfir daginn og aukin …
Borga þarf almennt fargjald í strætó yfir daginn og aukin tíðni ferða verður á meðan hátíðardagskráin er í gangi. mbl.is/Árni Sæberg

Tæming

„Leiðakerfi Strætó á höfuðborgarsvæðinu verður rofið kl. 22:30 og öllum tiltækum vögnum verður beint að Sólfarinu við Sæbraut. Frá Sólfarinu verður ekið í öll hverfi á höfuðborgarsvæðinu frá kl. 23:00- 00:30. Frítt verður í þessar ferðir,“ segir í tilkynningu borgarinnar. 

Nánari upplýsingar er að finna hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert