„Hann heyrði í mér hann Eyþór, sem er annar meðlimurinn í þessari hljómsveit, og hann bað mig persónulega afsökunar og þessu máli er bara lokið af minni hálfu,“ segir Skæringur Óli Þórarinsson, íbúi í Vestmannaeyjum, sem kom að heimili sínu í rúst eftir að hafa leigt það út yfir Þjóðhátíð.
Mbl.is greindi frá málinu í síðustu viku þar sem fram kom að liðsmenn hljómsveitarinnar HubbaBubba og hópur tengdur þeim hafi haft hús Skærings á leigu yfir verslunarmannahelgi og skilið gífurlega illa við það.
Voru gluggakistur undirlagðar af notuðum nikótínpúðum og tyggjóklessum, rúða, glös og skápar höfðu verið brotin, kertastjakar rifnir af veggjum og rusl út um allt hús.
Tvíeykið HubbaBubba samanstendur af þeim Eyþóri Aroni Wöhler og Kristali Mána Ingasyni. Í samtali við mbl.is sögðust þeir ekki hafa gist í húsinu, þó hópurinn á heimilinu hafi verið á þeirra vegum.
Segir Skæringur að honum hafi fundist vanta almennilega afsökunarbeiðni frá þeim og hafi hún komið frá Eyþóri Aroni Wöhler í kjölfar fréttaflutnings mbl.is af málinu.
„Það var svona það sem að lokaði þessu endanlega fyrir mér, að fá almennilega afsökunarbeiðni,“ segir Skæringur.
„Maður er svo sem alveg brenndur af þessu þannig séð en ég mun allavega ekkert aðhafast neitt meira í þessu,“ bætir hann við.