Samgöngustofa hefur hafnað bótakröfu farþega, sem var meinað um far með flugvél Icelandair frá Minneapolis í nóvember árið 2022 vegna þess að hann var með kött meðferðis en hafði ekki nauðsynleg gögn í höndunum til að ferðast með dýr til Íslands.
Farþeginn átti bókað far frá Minneapolis til Kaupmannahafnar með millilendingu í Keflavík en var neitað um far með fluginu til Keflavíkur.
Í úrskurði Samgöngustofu er vitnað í upplýsingar frá Icelandair. Þar kemur fram að farþeginn innritaði sig í Minneapolis en eftir innritunina tók hann fram að hann væri með hjálpardýr með sér. Starfsmaður bað um að fá að sjá dýrið og skýrslu frá Matvælastofnun um heimild fyrir dýrinu. Farþeginn sagðist ætla að sækja skýrsluna, sem væri í fartölvu í bíl hans en kom ekki til baka í innritunina heldur fór beint í hliðið. Starfsmaður þar þekkti farþegann og bað um að fá að sjá skjölin. Því neitaði farþeginn og vildi heldur ekki sýna köttinn sem var hulinn teppi. Þá var honum meinað að fara um borð í flugvélina.
Farþeginn hélt því fram að hann hefði ekki fengið réttar leiðbeiningar frá flugfélaginu þegar hann bókaði farið og krafðist bóta og endurgreiðslu á fargjaldinu.
Samgöngustofa segir í niðurstöðu sinni, að í málinu liggi fyrir að farþeginn gat ekki framvísað leyfi frá Matvælastofnun þegar hann vildi fara um borð í flugvélina, en á upplýsingasíðu Icelandair komi fram að óheimilt sé að ferðast með dýr frá Bandaríkjunum til Evrópu, með millilendingu í Keflavík, án leyfis frá MAST.
Telur Samgöngustofa að umrædd neitun um far hafi verið réttmæt þar sem í samningsskilmálum Icelandair sé tiltekið að það sé á ábyrgð farþega að afla upplýsinga um og hafa meðferðis nauðsynleg ferðagögn, áritanir og ferðaheimildir eftir því sem við á, til þess að ferðast til annarra ríkja.