Mímir fer sem leiftur um norska fjölmiðla

Mímir Kristjánsson skipar sæti vinstriflokksins Rødt á norska Stórþinginu og …
Mímir Kristjánsson skipar sæti vinstriflokksins Rødt á norska Stórþinginu og prýðir nú síður allra veigamestu fjölmiðla Noregs sem fjalla um hreinskilna, einlæga og hispurslausa minningabók hans um áfengisvandamál sem markað hefur ætt hans að því er hann segir aftur til borgfirska skáldsins og berserksins Egils Skallagrímssonar. Ljósmynd/Aðsend

Mímir Kristjánsson, þingmaður norska sósíalistaflokksins Rødt, hefur sent frá sér bókina Pabbi – Fjölskyldusaga um drykkjuskap sem norskir fjölmiðlar hlaða nú lofi í ítarlegri yfirferð og umfjöllun og útskrifar rýnir norska ríkisútvarpsins NRK Mími með æðsta láði, sex af sex mögulegum í einkunn í teningakastsfyrirkomulagi sinnar gagnrýni.

Þingmaðurinn, sem er 37 ára gamall sonur íslensks föður og norskrar móður, skrifar á norsku en heldur þar íslenska orðinu pabbi í bókartitlinum sem á útgáfumálinu er Pabbi – En familiesaga om drukkenskap. Dregur Mímir þar ekkert undan og ræðir hispurslaust um drykkjuskap þeirra feðga en faðir hans, Kristján Loftsson Guðlaugsson, sem á starfsævi sinni var meðal annars blaðamaður og ritstjóri vesturstrandardagblaðsins Rogalands Avis, féll frá í júní í fyrra.

„Hann á sér langa ættarsögu um drykkjuskap sem nær allt aftur til skáldsins Egils Skallagrímssonar,“ skrifar vefmiðillinn iNyheter sem fjallar um bók þingmannsins hálfíslenska sem flestir norskir fjölmiðlar hafa upp á síðkastið gert að yrkisefni sínu, þar á meðal VG þar sem blaðamaður kveður Mími skrifa af hlýju og stílbragði hinu besta um foreldra sína og uppvaxtarár.

Beitti föður sinn fortölum

„Mímir var elskað barn, foreldrarnir önnuðust soninn þrátt fyrir að áfengisneysla og glaumkennt líferni væri þeirra ær og kýr,“ skrifar sá og bætir því við að syrt hefði í álinn er á leið. Móðir Mímis hefði sýkst af alvarlegu krabbameini en faðir hans blaðamaðurinn oft verið illa fyrirkallaður og horfið langtímum saman.

Í bókinni segir af því að faðirinn hafi haft uppi drykkjuóra um að ferðast til Shanghai í Kína og hafi Mímir því hjólað í tíma og ótíma út á járnbrautarstöð til að tala um fyrir honum og beita hann fortölum til að láta af ferðaáætlunum sínum. Þau mæðginin hafi í kjölfarið lagt hart að Kristjáni að láta af drykkju sinni og haft sitt fram um tíma.

„Þingmaður Rødt-flokksins getur drukkið fimm-sex daga í röð. Og daginn eftir það þyrstir hann í meira,“ skrifa iNyheter og vitna í framhaldinu í Mími: „Drekki ég fimm daga í röð finn ég ekki fyrir neinu sem bælir löngun mína í að drekka þann sjötta. Þá finn ég að ég er á leið inn í þá áfengisfíkn sem nánast er mér eðlislæg, innbyggð,“ segir hann.

...og hann drakk

Þar kveðst hann líkjast föður sínum sáluga. „Ég mun alltaf verða græðlingur af hans meiði. Hann var kommúnisti og blaðamaður – og hann drakk. Rétt eins og ég,“ heldur Mímir áfram af látlausri hreinskilni en sjálfur tekur hann sín edrútímabil, vikur og mánuði. Kvíðann segir hann versta fylgifisk Bakkusar.

„Eigi ég mér einhver rök innan úr eigin skrokki fyrir því að hætta að drekka er það vegna bévítans kvíðans. Kvíðinn er óróinn stjórnlausi sem steypist yfir mig þegar mér finnst ég hafa sagt eitthvað misráðið, gert eitthvað sem betur hefði verið látið ógert,“ segir þingmaðurinn. Kvíðann kveður hann hafa versnað með aldrinum, í síðustu kosningabaráttu var hann drukkinn fram undir morgun, lagði sig svo á fimmta tímanum og mætti til sinnar vinnu. Sjálfur skilgreinir hann sig sem virkan mann með áfengisvanda, túradrykkjumann.

„Það vanmetnasta við áfengisvandamálið er að það rænir mann vitinu. Ekki bara að hluta, maður missir sig algjörlega. Sjálfsálitið bíður hnekki, tilfinningalífið missir jafnvægið. Það væri vanhugsað af mér að játa ekki að ég er með böggum hildar yfir áhrifum drykkjunnar á sálarlífið,“ segir hinn íslensk-norski Mímir Kristjánsson að lokum við iNyheter, en hann ræðir einnig við fleiri norska fjölmiðla og dregur hvergi undan.

NRK

VG

Dagbladet

Aftenposten

Dagsavisen

Nettavisen

ABC Nyheter

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert