Segir sárin vonandi munu víkja fyrir trjám

Brekkurnar fyrir ofan Saltvík.
Brekkurnar fyrir ofan Saltvík. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Mér finnst framkvæmdaraðilinn hafa útskýrt ágætlega af hverju er verið að beita svona aðferðum á þessum stað.“

Þetta segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings í samtali við mbl.is spurð hvort henni þyki aðferðirnar sem notast er við til skógræktar eðlilegar.

Sigurjón Jónsson, prófessor við King Abdulla-háskólann, segir langflestum brugðið yfir „þessum ótrúlegu aðferðum“ sem greint var frá í gær.

Sveit­ar­stjórn Norðurþings samþykkti í janú­ar til­lögu skipu­lags- og fram­kvæmdaráðs um að út­hluta fyr­ir­tæk­inu Yggdrasil Car­bon landi til skóg­rækt­ar fyr­ir ofan Salt­vík.

Trén eigi að ná rótfestu og þroska

„Persónulega finnst mér þetta groddaleg vinnsla, djúp sár í svörðinn en þetta er ákvörðun sem var tekin um að leggja þetta land undir skógrækt og þetta er gert samkvæmt þeim sem hafa tjáð sig um framkvæmdirnar til þess að trén nái fyrr rótfestu og þroska,“ segir hún.

Katrín tekur undir að þetta séu leiðinleg sár á meðan landið er nýunnið.

„Það verður önnur ásýnd á því eftir nokkur ár ef að skógræktaráformin ná fram að ganga. Þá munu sárin vonandi víkja fyrir trjágróðri.“

Aðspurð segist hún skilja að fólk hafi sterkar skoðanir á málinu.

„Ég get sagt frá því að við erum í vinnslu á aðalskipulagi þar sem er tekið til landnotkunar. Það skipulag er í vinnslu og fer í kynningu vonandi núna í haust. Þá gefst fólki tækifæri til þess að tjá sig um landnotkun og koma sínum skoðunum á framfæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert