Skýr merki um að eldgos geti hafist

Nýtt hraun þekur hluta Reykjanesskagans eftir gos síðustu ára.
Nýtt hraun þekur hluta Reykjanesskagans eftir gos síðustu ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skjálftavirkni og landris við Sundhnúkagígaröðina sýna nú skýr merki um að kvikuinnskot og jafnvel eldgos geti hafist hvenær sem er.

Aftur á móti, ef miðað er við síðasta eldgos, þá gæti þurft áframhaldandi kvikusöfnun í tvær til þrjár vikur til viðbótar áður en nýtt eldgos hefst.

Þetta kemur fram í tilkynningu Veðurstofu.

Segir þar að jarðskjálftavirkni hafi verið nokkuð stöðug síðustu daga og um 60 til 90 skjálftar mælst á sólarhring. Flestir skjálftanna séu smáskjálftar undir 1 að stærð á svæðinu frá Stóra-Skógfelli að Grindavík.

Þetta sé svipuð virkni og hafi verið síðustu tvær vikur.

Hélt áfram í tvær vikur síðast

Landris og kvikusöfnun hafi verið á nokkuð stöðugum hraða undanfarna daga.

Rúmmál kviku undir Svartsengi er núna áætlað meira en fyrir síðasta eldgos sem hófst þann 29. maí. Fyrir síðasta gos hélt kvikusöfnun áfram í tvær vikur eftir að fyrri mörkum var náð, þar til eldgos hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert