„Þetta er rosalegt,“ segir Fanney Ásgeirsdóttir þjóðgarðsvörður í samtali við mbl.is spurð hvernig staðan er á Sprengisandi eftir skemmdarverk sem voru unnin þar.
„Þetta er ótrúlegur verknaður. Bíllinn fer út af vegi og spólar upp mel og svo finnst honum það ekki nóg heldur keyrir bara eftir einhverjum slakka og að næsta slétta part. Þetta er út um allt,” segir hún.
Ríkisútvarpið greindi frá skemmdum vegna utanvegaaksturs á Sprengisandi í gær.
„Þetta er á miklu stærri skala en við höfum séð á þessu svæði,“ segir Fanney spurð hvort hún þekki önnur sambærileg dæmi.
Aðspurð segist Fanney ekki vita hver sökudólgurinn er.
„Það er gallinn að þetta er vegur sem er ekki fjölfarinn og viðkomandi hefur líklega haft góðan tíma til að vera einn og valda spjöllum.“
Fanney biðlar til fólks sem þekkir til málsins eða hefur upplýsingar sem geti nýst þjóðgarðinum og lögreglunni við rannsókn að koma þeim áleiðis.
Þetta var ekki gert af gáleysi.
„Nei, þetta er sko ekki gáleysi, það er alveg ljóst,“ segir Fanney.
Hún viti ekki hvað ökumaðurinn þekki til um íslensk lög og reglur en að hvergi nokkurs staðar í heiminum megi koma svona fram við náttúruna.
„Mér heyrist á þeim ferðamönnum sem framhjá okkur fara og tala við okkur að allir eru mjög meðvitaðir um það að svona megi ekki ganga um,“ segir hún.
Fanney segir að þau viti að skemmdarverkin voru framin á þriðjudag á milli kl. 13 og 19.
„Það voru ferðamenn sem fóru úr Nýjadal [...] og komu svo aftur seinnipart dags og sáu þetta á leiðinni heim. Þess vegna höfum við þennan tímaramma,“ segir Fanney en skemmdarverkin voru framin eftir að ferðamennirnir lögðu af stað.
„Þeir sýndu landverðinum myndir og hún fór svo að skoða þetta betur og undirbúa skýrslur. Svo kærum við þetta til lögreglu,” segir Fanney.
Spurð hvað sé hægt að gera til að bæta úr þessu segir Fanney að það sé ekki hægt að raka yfir þessi för.
„Þarna er malarkápan á Sprengisandi orðin svona hula yfir sandinum og þarna er hún rofin. Það að ætla að reyna að raka þetta eða laga þetta býr til stærra svæði sem við erum búin að brjóta og skemma.“
Fanney segir þau reyna að laga svæðið með því að stíga niður brúnirnar á förunum og reyna að mýkja þær og búa til dældir í staðinn fyrir förin.
„Það þarf eiginlega að labba eftir brúnum og trampa þær niður og færa til efni ofan í dýpstu sárin svo það verði ekki pollar og blási úr kantinum.“