„Ætlum ekki að leyfa frjálshyggjunni að sigra“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort að hann ætli í formannsframboð. mbl.is/María Matthíasdóttir

Hvort að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna, fari í formannsframboð í október er enn óljóst. Hann segir þó að flokkurinn megi ekki leyfa „frjálshyggjunni að sigra“.

Flokksráðsfundur Vinstri grænna stendur nú yfir í Reykjanesbæ og Guðmundur Ingi sagði á fundinum að flokkurinn þyrfti að fara aftur í ræturnar og skerpa á áherslum í umhverfismálum og í vinstrimálum.

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um framboð, en hver sem ákvörðun mín verður, þá er alveg ljóst að ég mun vinna áfram að baráttumálum okkar og fyrir hreyfinguna okkar af fullum krafti. Framlag okkar allra skiptir máli sama hvar við stöndum í stafni.

Að lokum ætla ég bara að segja: Við ætlum ekki að gefast upp. Við ætlum ekki að leyfa frjálshyggjunni að sigra,“ sagði Guðmundur á flokksráðsfundinum.

Landsfundur eftir sjö vikur

Landsfundur Vinstri grænna verður haldinn eftir sjö vikur þar sem flokkurinn mun kjósa sér nýja forystu en enginn hefur tilkynnt framboð.

Bæði Guðmundur og Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra hafa verið sterklega orðuð við framboð.

Sjálf hefur Svandís sagt að ótímabært sé að gefa það upp hvort að hún ætli í formannsframboð eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert