Fólk er í hættu innan bygginga þar sem burðarþol er ófullnægjandi. Þetta segir Einar Þorsteinsson borgarstjóri. Því hafi hann látið rýma leikskólann Brákarborg. Hann er gagnrýninn á framkvæmdina.
Einar er gestur Spursmála og þar er hann meðal annars spurður út í málefni leikskólans sem Reykjavíkurborg setti á fót með kostnaði upp á 2,3 milljarða króna. Var það gert með uppkaupum á gömlu og hrörlegu húsi, uppgerð þess og endurbótum. Í ljós er komið að torfþak og gríðarlegt efnismagn sem mokað var á þakið var með því móti að veggir hússins standast ekki þunga þess.
Voru börnin á þessum leikskóla á einhverjum tíma í hættu?
„Ég fékk upplýsingar um þetta í sumar og mitt viðbragð var að kalla alla heim úr sumarfríi því ég sá að ef burðarþol er ekki í lagi þá er fólk í hættu. Ég lít svo á. Það komu þarna tvær verkfræðiskýrslur sem sýndu að burðarþolið var ekki í lagi.“
Er gengið á Einar í viðtalinu og segist hann þrátt fyrir þetta svar ekki geta fullyrt að börn eða starfsfólk hafi verið í hættu. Hins vegar verði að líta til þess að byggingar af þessu tagi eigi að geta staðið af sér jarðskjálfta og að niðurstöður sérfræðinga séu þær að endurbæta þurfi burðarþol hússins til þess að það teljist í viðeigandi ástandi.
„Ég myndi ekki samþykkja að fara í svona aðgerð. Að kaupa gamalt hús á háa fjárhæð og eyða svo miklum fjármunum í að gera það upp. Skólinn er fallegur núna en hann stenst því miður ekki þær kröfur sem við gerum til bygginganna,“ segir Einar.
Viðtalið við Einar má sjá og heyra í heild sinni hér. Það er einnig aðgengilegt á Spotify og Youtube.