Eins og þegar blásið er í blöðru

„Þetta er bara biðin núna eftir kvikuhlaupi.“
„Þetta er bara biðin núna eftir kvikuhlaupi.“ Hörður Kristleifsson

Hægt hefur á landrisi við Sundhnúkagígaröðina að sögn Jóhönnu Malen Skúladóttur, náttúruvársérfræðings. Skjálftavirkni er áfram mikil í kvikuganginum eða allt að 90 á sólarhring.

„Þetta er bara biðin núna eftir kvikuhlaupi. Þetta gæti gerst hvenær sem er en við gætum líka þurft að bíða í allt að tvær til þrjár vikur miðað við að það hefur aðeins hægt á landrisinu,“ segir Jóhanna og segir þrýsting á svæðinu mikinn. 

Erfitt fyrir kviku að troða sér í gegn

Spurð hvað kunni að liggja þar að baki nefnir Jóhanna að erfiðara sé fyrir kviku að brjóta sér leið í gegn í sívaxandi þrýstingi. 

„Eftir því sem landris eykst því meiri þrýstingur er á landinu og það er í raun erfiðara fyrir kviku að troða sér inn í sívaxandi þrýsting,“ segir Jóhanna. 

Hún segir sömuleiðis mega hugsa um landrisið eins og þegar blaðra er blásin upp. Þegar blaðran sé tóm virki eins og hún stækki mun meira en þegar blásið er í næstum fulla blöðru, jafnvel þó jafn miklu lofti sé blásið í blöðruna í bæði skiptin.

„Eftir því sem kvikuhólfið stækkar því dreifðara er landrisið og þá í rauninni rúnast það aðeins út þó það sé kannski jafnmikið kvikuinnstreymi,“ segir Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert