„Ekki forgangsmál“ að breyta útlendingalögum

Guðmundur segir frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni ekki forgangsmál fyrir honum. …
Guðmundur segir frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni ekki forgangsmál fyrir honum. Leggja eigi þó áherslu á að bæta stöðu innflytjenda. Samsett mynd/Eyþór/Eggert

Starfandi formaður Vinstri grænna segir frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni ekki vera forgangsmál í sínum augum. Forsætisráðherra hefur aftur á móti sagt útlendingamál vera forgangsmatriði ríkisstjórnarinnar og dómsmálaráðherra boðar nú nýtt útlendingafrumvarp.

Flokksráð VG er nú samankomið í Stapa í Reykjanesbæ þar sem Guðmundur hélt ræðu og fór um víðan völl. 

„Ég vil því segja það alveg skýrt hér að ég tel það ekki forgangsmál að gera frekari breytingar á útlendingalöggjöfinni,“ sagði Guðmundur.

„Mikilvægt er að áhrif breytinga á útlendingalöggjöfinni sem þegar hafa verið samþykktar komi fram.“

Aukin stéttskipting með innflytjenda

Þetta virðist ekki vera í samræmi við það sem Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefur sagt. Í samtali við mbl.is fyrir nokkrum dögum sagði Bjarni að út­lend­inga­málin væru forgangs­atriði hjá rík­is­stjórn­inni á kom­andi þing­vetri.

Sagði hann að ýmis úrlausnarefni þyrfti að klára í þeim málaflokki. Þá hefur Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra boðað nýtt útlendingafrumvarp á komandi þingvetri. 

Guðmundur sagði að innflytjendur væru að nálgast það að verða 20% landsmanna. Aukin stéttaskipting væri sjáanleg, innflytjendur væru líklegri til að búa við fátækt og börn þeirra líklegri til að detta úr framhaldsskóla.

„Og þetta, góðir félagar, þetta eru hinar raunverulegu áskoranirnar þegar kemur að útlendinga- og innflytjendamálum á Íslandi,“ sagði Guðmundur.

Aukið fjármagn til „inngildingar“

Hann sagði samt málefni innflytjenda vera forgangsmál. Innflytjendum þyrfti að veita meiri aðstoð í skólum, kenna þeim íslensku og aðstoða þá við að fóta sig í samfélaginu.

„Þess vegna er það fagnaðarefni að í fjármálaáætlun í vor var tryggt aukið fjármagn til inngildingar, sérlega til aðstoðar í skólum landsins. Og í haust mun ég leggja fram á þingi fyrstu stefnu Íslands í innflytjendamálum ásamt framkvæmdaáætlun og ný heildarlög um inngildingu innflytjenda,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka