Erlend flugrekstrarleyfi utan valdsviðs Samgöngustofu

Myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti.
Myndin tengist ekki fréttinni með beinum hætti. mbl.is/Árni Sæberg

Ferðafyrirtæki sem bjóða upp á þyrluflug innanlands eru utan valdsviðs Samgöngustofu séu þau með erlend flugrekstrarleyfi. Flugtímareglur þeirra eru sömuleiðis rýmri.

Þetta kemur fram í svari Þórhildar Elínardóttur samskiptastjóra stofnunarinnar við fyrirspurn blaðamanns um hvaða reglur séu í gildi fyrir þyrlur á vegum íslenskra ferðafyrirtækja.

Fyrirspurnin tengist þyrluferðafyrirtækinu Glacier Heli sem olli tjóni á bifreið er þau lækkuðu flug sitt á bílastæði, að sögn Sverris Tryggvasonar eiganda bifreiðarinnar.

Glacier Heli er raunar ekki með flugrekstrarleyfi, heldur leigir þyrlur frá slóvakíska fyrirtækinu Aeroheli International en það er með flugrekstrarleyfi.

Rýmri flugtímareglugerð

Sverrir hafði samband við Samgöngustofu í kjölfarið sem kvaðst lítið annað geta gert en að hafa samband við stjórnvöld í Slóvakíu, þar sem þyrlan er með flugrekstrarleyfi, til að tilkynna þeim um málið.

Aðspurð segir Þórhildur í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það að fyrirtæki sem fljúgi innanlands undir erlendu flugrekstarleyfi og ekkert í reglugerðum sem meini þeim það. 

Segir hún aftur á móti engu máli skipta hvar þyrlan sé skráð þegar komi að tryggingamálum og bótum ef til tjóns kemur.

„Fyrirtækið getur ekki skotið sér undan ábyrgð ef tjón sannast.“ 

Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mætti taka flugtímareglur til skoðunar

Spurð hvort sömu reglur séu í gildi fyrir þyrlu með erlent flugrekstrarleyfi hvað varðar flug- og vakttíma segir Þórhildur erlenda flugrekendur sem koma til Íslands til að starfa við annað en þyrluskíðaflug falla undir evrópskar flugtímareglugerðir sem séu rýmri en þær íslensku.

Innt eftir því hvort það skjóti ekki skökku við að flugstarfsemi sem fari alfarið fram innanlands starfi undir rýmri reglum um vakt- og flugtíma segir Þórhildur það eflaust eitthvað sem megi skoða betur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert