Fundurinn notaður sem afsökun fyrir vopnavæðingu

Björn segir að almenningur eigi rétt á því að vita …
Björn segir að almenningur eigi rétt á því að vita hversu mörg skotvopn voru keypt af ríkislögreglustjóra. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Þingmaður Pírata segir sjálfsagt að almenningur fái að vita hversu mörg skotvopn ríkislögreglustjóri keypti fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins. Þá segir hann að svo virðist vera sem fundurinn hafi verið notaður sem afsökun til að vopnavæða lögregluna. 

Úrskurðarnefnd upplýsingamála úrskurðaði að ríkislögreglustjóri þyrfti ekki að birta nákvæmar upplýsingar um fjölda skotvopna eða skotfæra sem keypt voru fyrir fundinn. Kostnaðurinn við skotvopn og skotfæri nam í heild um 185 milljónir króna.

Þó lét nefndin ríkislögreglustjóra afhenda mbl.is afmáða sölureikninga þar sem lítið kom fram annað en að hann hafði keypt Glock-skammbyssur fyrir 29,5 milljónir króna af Veiðihúsinu Skakka.

Spyr hvar mörkin liggja

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir í samtali við mbl.is að hann velti því fyrir sér hvar mörkin liggja er varðar takmarkanir á upplýsingagjöf til almennings vegna þjóðaröryggis.

„Má gera það um kylfur, rafbyssurnar, úðabrúsana, fjölda lögreglumanna, fjölda sérsveitarmanna eða hvar liggur þjóðaröryggislínan hvað þetta varðar og af hverju liggur hún þar?“ spyr Björn.

Finnst þér að almenningur eigi rétt á því að vita hversu mörg skotvopn voru keypt og skotfæri?

„Já, tvímælalaust. Ég kaupi ekki þjóðaröryggispakkann af þessu. Kannski ef við værum að þykjast vera með kjarnorkuvopn eins og Ísraelar þá kannski væri það skiljanlegra. En ekki þegar það er verið að tala um skammbyssur og svo framvegis,“ segir hann.

Mynd frá leiðtogafundi Evrópuráðsins.
Mynd frá leiðtogafundi Evrópuráðsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enginn tilgangur fyrir vopnin eftir fund

Eins og fyrr segir þá keypti ríkislögreglustjóri vopn og skotfæri fyrir 185 milljónir króna. Eina sem ríkislögreglustjóri gaf upp var að hann hefði meðal annars keypt Glock-skammbyssur og hálfsjálfvirkar MP5-byssur. Þá voru tvær aðrar tegundir skotvopna sem ríkislögreglustjóra var ekki gert að greina frá.

Miðað við verðið í Evrópu á fimmtu kynslóð af Glock 17 má áætla að ríkislögreglustjóri hafi keypt um 300-400 skammbyssur. Þá standa eftir 155 milljónir til ráðstöfunar í MP5-byssurnar, skotfæri og hinar tvær skotvopnategundirnar sem voru ekki tilgreindar.

Björn kveðst ekki vita hvaða öryggisreglur hafi gilt á meðan fundinum stóð en segir samt að það sé væntanlega enginn tilgangur fyrir þennan fjölda vopna eftir fund.

„Þetta virtist frekar vera afsökun til þess að vopnavæða lögregluna. Að nota þennan fund til þess að stækka vopnabúrið. Ef þetta hefði verið bara fyrir fundinn þá hefðu þau bara fengið það sem þau þurftu fyrir hann og svo skilað því, eða þvíumlíkt,“ segir hann.

Þingmenn fengið takmarkaðar upplýsingar

Inn­kaup ríkislögreglustjóra fóru ekki í gegn­um útboð á veg­um Rík­is­kaupa. Þess í stað tók RLS þá ákvörðun að fara í svo­nefnd bein samn­ings­kaup, þ.e. inn­kaupa­ferli án útboðs.

Telur þú eðlilegt að það hafi ekki verið farið í útboð, það er til dæmis verslað við íslenskan aðila fyrir 30 milljónir.

„Allt svona bíður upp á vangaveltur um spillingu. Það er ekki hægt að komast hjá því að ásakanir eða vangaveltur um slíkt komi þegar ekki er farið í útboð með svona háar upphæðir. Þetta gæti verið tilfallandi hvernig hver varð valinn og skýringar þar á baki,“ segir Björn.

Hann segir ekki hægt að sjá hvort að gætt hafi verið að jafnræði við notkun á fjármunum hins opinbera miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Þingmenn hafi fengið takmarkaðar upplýsingar um málið. 

„Það kom okkur á óvart hversu lítið aðgengi þingmenn virðast hafa að þessu. Ráðherra kannski, en svörin sem ráðherra veitti voru dálítið á þann veg að þetta væri í höndum lögreglunnar. En það er stórpólitísk ákvörðun að vopnvæða lögregluna,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert