Lágvöruverslunin Prís opnaði dyr sínar í dag í fyrsta skipti. Markmiðið er að vera ódýrari heldur en samkeppnin. Í sumum tilfellum þarf verslunin að greiða með vörunum.
„Okkar markmið er að bæta hag heimilanna með því að lækka matvöruverð á Íslandi. Við erum ódýrari heldur en hinir,“ segir Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís, í samtali við mbl.is. Nefnir hún sem dæmi vörur á borð við nýmjólk, léttmjólk, nautahakk og egg.
Hún segir að við allar vörur sem þau bjóði upp á sé miðað við að vera ódýrari en samkeppnin. Í sumum tilfellum muni tugum prósenta.
„Í einhverjum tilfellum erum við að greiða með vörunni. Það er einfaldlega vegna þess að við erum ekki að fá samkeppnishæf verð,“ segir Gréta María.
Verður þetta fyrirkomulag til frambúðar?
„Tíminn verður að leiða það í ljós. Við viljum fá fólk með okkur í lið og mæta með okkur á pallinn í Smáratorgi og koma og kíkja á okkur.“
Gréta segir að alltaf sé í skoðun að opna fleiri verslanir, t.d. á landsbyggðinni.
„Við erum líka að gera ráð fyrir að við erum með búð á höfuðborgarsvæðinu en samkeppnisaðilarnir eru með búðir úti á landi. Ef þeir ætla að lækka verð á höfuðborgarsvæðinu þá hljóta þeir að lækka líka úti á landi sem gerir það að verkum að með innkomu okkar eiga allir landsmenn að njóta þess að fá lægra verð,“ segir Gréta.
Í janúar greindi mbl.is frá því að Alþýðusamband Íslands hefði sent inn umsókn um einkarétt á nafninu Prís til Hugverkastofu. Prís ASÍ er app þar sem hægt er að skanna strikamerki á vörum og gera verðsamanburð eftir verslunum.
Þá vildi svo til að Heimkaup sótti einnig um einkarétt á nafninu til þess að opna lágvöruverslun á vegum fyrirtækisins undir nafninu Prís.
„Það eru rosa mikið af vörumerkjum sem eru með sama heiti,“ segir Gréta María og nefnir Orku, sem er eldsneytissali og orkudrykkur, og að Arion sé bæði banki og dýrafóður.
„ASÍ á Prís appið og við eigum Prís búðina,“ segir Gréta María.
Það þykir ekkert vandamál?
„Nei nei. Við viljum að sjálfsögðu vinna vel með ASÍ. Þau eru að berjast fyrir hag verkalýðsins í landinu og það erum við svo sannarlega að gera líka, með því að lækka verð á matvælum.“