Í fallegri íbúð í Vesturbæjarblokk býr hin skemmtilega Vigdís Hafliðadóttir ásamt sambýlismanni og voffanum Lamba sem er mjög spenntur fyrir gestinum. Ljóst er að parið er listrænt því myndlist er uppi um alla veggi, hljómborði hefur verið komið fyrir upp við vegg og sjá má glitta í gítar á standi. Blaðamaður fær sér sæti í notalegum sófa og Vigdís byrjar á að ná í kaffi. Okkur er þá ekkert að vanbúnaði að hefja gott spjall um tónlist, leiklist, uppistand og margt fleira, en Vigdís er eins og kameljón sem bregður sér í ýmis líki. Hún segist ekki enn búin að ákveða hvað hún vilji verða þegar hún er „orðin stór“. Best finnst henni að hafa nóg fyrir stafni og sjá hvert lífið og listin leiðir hana.
Í Menntaskólanum við Hamrahlíð var Vigdís í kór og leiklist og ákvað að prófa síðan að sækja um í leiklistarskólanum. Hún komst ekki inn og ákvað að reyna ekki aftur heldur skellti sér í heimspeki í Háskólanum, eins og pabbi.
Spurð hvers vegna hún hafi valið heimspeki segist hún hafa farið á námskynningu í Háskóla Íslands þar sem hún gekk á milli borða og, eins og hennar er von og vísa, leist henni vel á nánast allt.
„Það þyrmdi yfir mig því ég hafði ekki hugmynd um hvað ég vildi. Svo kom einn kennari til mín og sá að ég var þungt hugsi. Hann spurði mig í hverju ég væri að pæla og ég svaraði: „Æi, ég er bara að pæla í öllu.“ Hann svaraði þá að ég væri á réttum stað. Og þetta var við heimspekiborðið og það fannst mér sniðugt. Það var æðislegt í náminu og ég er þakklát fyrir að hafa fengið að læra heimspeki,“ segir Vigdís og segir námið gott og gagnlegt en að því loknu bíða ekki störfin í röðum.
„Þetta frestaði þessari eilífu spurningu um hvað ég vildi gera,“ segir Vigdís og brosir.
„Ég vann verkefni fyrir Siðfræðistofnun en fór svo í pípulagninganám,“ segir hún og segist hafa hugsað að það væri óvænt og flippað, nokkuð sem enginn átti von á frá henni, en um leið hagnýtt.
„Þá var ég búin að stofna hljómsveit og var byrjuð í uppistandi en fannst ég þurfa að gera eitthvað praktískt,“ segir Vigdís og segist reyndar bara hafa tekið eina önn því hún var á sama tíma upptekin við tónlist og uppistand og sá fljótt að mögulega væri hægt að lifa af listinni.
En kanntu þá eitthvað í pípulögnum?
„Ég kann ekki neitt. Þetta var ein önn í bóklegum pípulögnum. Fólk ætti frekar að fá fagmann í verkið en mig,“ segir Vigdís og brosir.
„Ég hef notað þessa reynslu í uppistandi. En ég var ekki frábær nemandi.“
Eftir pípulagninganámið „mikla“ tók Vigdís að sér hin ýmsu verkefni; fór í hlutastarf hjá Þjóðleikhúsinu, vann fyrir nýsköpunarfyrirtæki og samdi lög fyrir Flott, en sú hljómsveit var stofnuð þegar Vigdís var á síðasta ári í heimspekinni.
„Þegar ég var í heimspekinni, sem er frábær og skapandi að einhverju leyti, fann ég að mig langaði aðeins aftur að kíkja á tónlistina sem ég hafði aðeins sett á ís. Mig langaði að búa eitthvað til; semja. Mér fannst vanta svolítið hljómsveitir og langaði líka að sýna að stelpur gætu spilað á hljóðfæri. Það var hugsjónin,“ segir Vigdís og segir þær í hljómsveitinni allar þekkjast úr MH.
Af hverju völduð þið nafnið Flott?
„Mér finnst orðið margrætt. Það þýðir eitthvað jákvætt en er stundum merkingarsnautt eins og þegar fólk svarar bara „flott, flott”. Stundum er það notað í kaldhæðni. Mér finnst þetta bara skemmtilegt orð sem býður upp á mikið grín. Mig langaði líka að þetta yrði hljómsveit sem tæki sig ekki of alvarlega. Hún er flott en ekki frábær eða stórkostleg. Hún er flott og stundum er það bara nóg,“ segir Vigdís og segist semja alla textana og yfirleitt laglínur líka.
Hljómsveitin Flott var stofnuð árið 2020, árið sem allt lokaðist vegna kórónuveirunnar. Það leið því heilt ár þar til hljómsveitin kom fyrst fram, þá í beinni útsendingu á Menningarnótt árið 2021.
„Eftir það fórum við að spila meira og höfum fengið fullt af skemmtilegum tækifærum. Við höfum gefið út sextán lög,“ segir hún og segir þær fimm allar vera uppteknar í alls kyns öðru og því getur verið erfitt að finna tíma til að hittast til að æfa.
Vigdís hefur verið hluti af sýningarhópi Improv Ísland í mörg ár og sýnt með þeim reglulega. Einnig er hún hluti af uppistandshópnum VHS með Villa Netó og fleirum.
„Nú er ég ein með uppistand og fer í fyrirtæki og árshátíðir að skemmta.“
Ertu aldrei stressuð á sviði?
„Ég er rosa stressuð áður en ég fer á svið. Ég fæ doða niður í fætur og mér líður eins og það sé að líða yfir mig. Mér líður eins og ég sé að stíga út í dauðann. Þetta er ógeðslega stressandi. Það fer þegar ég er komin á svið; þá er ég með mikinn fókus og veit að þá er að duga eða drepast. Þegar ég er búin með uppistand er það svo mikill léttir að mér líður eins og ég hafi lifað af. Ég upplifi rosalega skrítið adrenalínkikk. Uppistandið er kannski það sem ég hata mest,“ segir Vigdís og skellir upp úr.
„Ég er með háar væntingar til sjálfrar mín og vil helst að fólk sé grátandi úr hlátri. Ég set „standardinn“ mjög hátt en hef verið markvisst að æfa mig að vera ekki svona kröfuhörð,“ segir hún og segist alltaf verið mjög hörð við sjálfa sig.
„Það gerist stundum í 900 manna standandi árshátíðum. Eitt sinn var ég með uppistand fyrir hundrað manns og það gekk mjög vel, en síðar um daginn var ég með uppistand fyrir tólf manns og enginn hló. Ég náði þeim ekki. Ég var miður mín og hringdi í Sögu Garðars sem sagði bara: „Velkomin í heim uppistandarans.“ En svo gaf hún mér mörg góð ráð og nú er ég betri í að meta aðstæður.“
Þú sagðist áðan hata uppistand en samt heldur þú áfram?
„Já, ég geri það,“ segir Vigdís og hugsar sig aðeins um.
„Þetta er þægilegur peningur,“ segir hún og hlær.
„Og ég er alveg góð í þessu. Stundum labba ég út og hugsa: „Vá, hvað ég er fyndin!“ Það væri synd ef ég myndi guggna á þessu.“
Ítarlegt viðtal er við Vigdísi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.