Sigurður B. Jónsson, forstjóri Ernis og Mýflugs, segir sviptingu á flugrekstrarleyfi Ernis engan veginn hafa komið sér að óvörum. Lengi hafi legið fyrir að færa flugstarfsemi Ernis inn í Mýflug.
„Þetta er bara partur af því að búa til eitt úr þessum tveimur flugfélögum og búa til einn bærilegan flugrekanda sem að getur veitt góða þjónustu í áætlunarflugi.“
Þórhildur Elín Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofunnar, greindi frá því í gær að Ernir uppfyllti ekki lengur þær kröfur sem gerðar væru til handhafa flugrekstrarleyfa.
Inntur eftir því hvaða kröfur Ernir hafi ekki uppfyllt segir Sigurður flugfélagið í raun hafa verið búið að vinda ofan af sinni starfsemi.
„Við vorum ekki búnir að skrá vélina yfir [á Mýflug] en í rauninni búnir að vinda þannig ofan af flugstarfseminni að hún bara gat ekki haldið áfram,“ segir Sigurður.
Segir Sigurður Erni lengi hafa staðið höllum fæti í rekstri, en Mýflug hafi einnig orðið fyrir neikvæðum áhrifum þess að missa samning um sjúkraflug sem fyrirtækið hafði sinnt í um 18 ár. Það hafi því legið í augum uppi að best væri að sameina flugrekstur þessara tveggja flugfélaga.
Ernir er með samningsbundin verkefni um flug til Hafnar í Hornafirði en Mýflug mun taka við rekstri áætlunarflugsins. Ernir mun áfram starfa sem fyrirtæki og þjónusta Mýflug.
Margt átti að smella saman um þessi mánaðamót að sögn Sigurðar í samningagerð í tengslum við sameininguna og áframhaldandi rekstur áætlunarflugs til Hafnar í Hornafirði.
„Þeir smullu nú reyndar saman fyrir utan að það var leitt að Samgöngustofa gerði þetta svona en ekki einhvern veginn öðruvísi,“ segir Sigurður.
„En þeir eru samt smollnir saman þannig að það er búið að taka tilboði Mýflugs til næstu þriggja til fjögurra ára í flug á Hornafjörð og við erum að skrá flugvélina sem Ernir hefur notað til okkar svo hún verður notuð áfram.“