Listamenn geta unnið eins og aðrir

Lefteris Yakoumakis hefur sterkar skoðanir varðandi þátttöku listamanna í samfélaginu. …
Lefteris Yakoumakis hefur sterkar skoðanir varðandi þátttöku listamanna í samfélaginu. Að þeir geti vel unnið önnur störf meðfram listinni. Ljósmynd/Aðsend

Lefteris Yakoumakis er myndasögusmiður og myndlistarmaður, með mastersgráðu í myndlist frá Aristoteles-háskóla í Þessalóníku. Hann er fæddur og uppalinn í höfuðborg Grikklands, Aþenu, en hefur búið á Siglufirði síðan 2013, með hléum. Þar stundar hann listina ásamt öðrum störfum.

„Listamenn eiga að vera í samfélaginu, ekki fyrir ofan það,“ segir Lefteris og bætir við að listsköpun sín sé ekki lúxustengd. Lefteris hefur sterkar skoðanir sem gaman er að hlusta á. Eflaust væri ágætt að geta lifað af listinni en honum finnst hann heppinn að fá að taka þátt í samfélaginu og vera ekki uppi á einhverjum stalli – ósnertanlegur – líkt og vill svo oft gerast með listamenn. Allir geti stundað listsköpun ef þeir leggi vinnu og tíma í það.

Myndasöguhátíð á Siglufirði

Sum verka Lefteris eru ansi dökk, en grípa augað um …
Sum verka Lefteris eru ansi dökk, en grípa augað um leið. Ljósmynd/Aðsend

Lefteris stendur fyrir Myndasöguhátíð Siglufjarðar sem er, samkvæmt hans vitund, sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis. Hátíðin fer fram dagana 30. ágúst til 1. september og þar munu bæði innlendir og erlendir listamenn kynna verk sín. Áherslan er á listamennina og að kynna myndasögur fyrir almenningi.

Heimilið mitt

Lefteris ólst upp í blokkaríbúð í miðbæ Aþenu, þar sem rýmið var ekkert. Hverfið sem hann bjó í var í harðari kantinum. Þess vegna varði hann miklum tíma inni sem barn og þær stundir fóru að mestu í að teikna.

„Fyrir mér var það eins konar flótti.“ Lefteris gat þannig skapað nýjan heim og upplifað hvers kyns ævintýri í gegnum teikningarnar. 

Lefteris flutti fyrst til Siglufjarðar 2013 og bjó þar til ársins 2016 þegar hann þurfti að snúa aftur til Grikklands af persónulegum ástæðum. Árið 2020 flutti Lefteris aftur til Siglufjarðar og er búsettur þar í dag ásamt sambýliskonu sinni, Lydiu Athanasopoulou.  

Lefteris hefur meðal annars verið á sjó á Siglufirði og …
Lefteris hefur meðal annars verið á sjó á Siglufirði og lætur vel af því starfi. Ljósmynd/Aðsend

Hin ólíku störf

Lefteris var um tíma á dagróðrabát ásamt öðrum Grikkja, Jannis, sem hefur búið á Siglufirði síðan snemma á níunda áratugnum. Farið var út að nóttu til eða undir morgun og komið heim síðdegis. 

Í dag starfar Lefteris sem baðvörður í sundlauginni á Siglufirði og gerir það stoltur og glaður. 

Lefteris er myndlistarmaður og hannar myndir fyrir myndasögur.
Lefteris er myndlistarmaður og hannar myndir fyrir myndasögur. Ljósmynd/Aðsend

Listamönnum á ekki að vera haldið uppi af ríkinu

Að því sögðu færist samtalið yfir í listamannalaun.

„Það á að styðja við listina, já, en listamönnum á ekki að vera haldið uppi af ríkinu. List er eitthvað sem þú ert og þess vegna stundarðu hana – ekki öfugt. Núna starfa ég sem baðvörður í sundlauginni og ég er listamaður. Þetta snýst ekki um peninga. Það er jákvætt að til séu styrkir og að íslenska ríkið taki þátt í því. En á sama tíma finnst mér það geti latt fólk og geti einnig, fyrir þá sem reiða sig eingöngu á styrki, falið í sér áhættu um að viðkomandi hafi ekki hugmynd um hvernig hið raunverulega líf er.“

Ítarlegra viðtal við Lefteris má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.




Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert