Segir ljóst að Samfylkingin fylgist ekki nógu vel með

Guðrún segir að mikið hafi verið gert í málaflokknum að …
Guðrún segir að mikið hafi verið gert í málaflokknum að undanförnu. Samsett mynd/Kristinn

Dómsmálaráðherra segir ánægjulegt að Samfylkingin sé farin að sýna áhuga fangelsismálum en segir það koma sér á óvart að Samfylkingin virðist „ekkert hafa tekið eftir því sem er í gangi í málaflokknum“.

„Ég vil auðvitað fagna áhuga Samfylkingarinnar á þessum málaflokki, sérstaklega þar sem þetta er málaflokkur sem er eitt af mínum áherslumálum í embætti,“ segir Guðrún í samtali við mbl.is.

Á dögunum fór Kristrún Frostadóttir í vettvangsferð í þrjú fangelsi og í kjölfarið sagði hún að ráðast þyrfti í bráðaaðgerðir strax í haust til að bæta mönnun, þjálfun og aðbúnað starfsfólks.

Guðrún segir ljóst að Samfylkingin hafi ekki verið að fylgjast nógu vel með að undanförnu. 

Stefnumótun þegar hafin

Í viðtali við mbl.is sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, að það væri ekki hægt að bíða fram að næstu kosningum varðandi stefnumótun í málaflokknum.

„Það er allavega sérstakt að heyra formann Samfylkingarinnar tala um það að það sé ekki hægt að bíða eftir næstu kosningum eftir stefnumótun í málaflokknum. Ég er alveg sammála því enda erum við ekki að bíða eftir því,“ segir Guðrún.

Hún nefnir að stefnumótun sé þegar í gangi og að starfshópur sé að störfum sem endurskoði allt fullnustukerfið. Hópurinn muni skila niðurstöðum af þeirri vinnu síðar í haust.

„Og ég vænti mjög mikils af því,“ segir Guðrún.

20 manns í fangavarðarnámi

Þá nefndi Kristrún við mbl.is að tryggja þyrfti öryggi fangavarða og fanga eins og með því að bæta menntun. Guðrún nefnir að um áramótin hafi fangavarðanám hafist á ný eftir að hafa ekki verið í boði nokkur ár.

„Við erum að tryggja aukna menntun fangavarða og erum að setja í það 80 milljónir. Núna eru 20 einstaklingar í fangavarðarnámi, sem ekki hafði verið kennt í nokkur ár. Fangavarðarskólinn tók til starfa um síðust áramót og það eru 20 nemendur í skólanum núna og við munum taka 20 inn í skólann um næstu áramót,“ segir Guðrún.

Með bættri menntun sé öryggi fangavarða og fanga tryggt betur, segir Guðrún.

Stefnir á að kynna drögin seinna á árinu

Guðrún minnist þess að henni hafi brugðið á síðasta ári þegar hún skoðaði húsakostinn á Litla-Hrauni. Ástandið hafi verið slíkt að erfitt væri að tryggja öryggi starfsmanna, fanga og sömuleiðis væri aðstæður fyrir aðstandendur fanga bágbornar.

„Þess vegna tók ég ákvörðun um það að byggja nýtt fangelsi og við ætlum að byggja hratt núna á næstu árum,“ segir Guðrún og bætir því við að verið sé að hanna fangelsið og stefnir hún að því að kynna drögin síðar á árinu.

Þá nefnir hún að búið sé að setja aukið fjármagn í að byggja nýja einingu við fangelsið að Sogni sem er ætluð kvenföngum.

„Mjög mikið í gangi í málaflokknum“

„Við erum að endurmeta fullnustukerfið, við erum með meiri menntun í gangi og við erum að bæta aðstöðu kvenfanga. Við höfum verið að tryggja líka aðstöðu þeirra þjónustuaðila og þá erum við aðallega að tala um heilbrigðisstarfsfólk eins og geðlækna, hjúkrunarfræðinga og aðra. Þau erum komin í betri aðstæður á Litla-Hrauni en verið hefur. Þannig það er mjög mikið í gangi í málaflokknum.“

Guðrún segir að sér þyki sérstakt að Kristrún skuli tala með þeim hætti eins og ekkert hafi verið gert í þessum málaflokki.

„Það kemur mér spánskt fyrir sjónir að þau virðast ekkert hafa tekið eftir því sem er í gangi í málaflokknum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert