Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, segir að ekki liggi fyrir hver meðalaldur barna sé við inngöngu í leikskóla nú í haust. Þó sé borgin með virka upplýsingagjöf gegnum svokallaðan leikskólareikni.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali í Spursmálum sem aðgengilegt er á mbl.is.
Orðaskiptin um stöðu leikskólamála í borginni má sjá í spilaranum hér að ofan. Þau eru einnig rakin í textanum hér að neðan.
„Ég held reyndar að borgin sé líklega með bestu upplýsingagjöfina þegar kemur að þessu stóra verkefni að úthluta börnum leikskólaplássi. Við opnuðum þarna stafrænt form, leikskólareikninn, sem á að svara þessu. Hann leysir ekki leikskólavandann, en hann veitir upplýsingar og ég heyri það frá foreldrum úr öðrum sveitarfélögum, meðal annars þínu sveitarfélagi í Garðabæ, að þetta er að gagnast mjög vel, að þau eru að skoða, bíddu hérna er leikskóli, svona eru margir með þennan skóla í fyrsta vali og annað val.
En fólk skortir algjöra yfirsýn, fólk skortir yfirsýn.
„Já en við erum að setja upplýsingarnar á vefinn þannig að fólk þurfi ekki að vera að hringja niður í Reykjavíkurborg og spyrja, og þar er einhver manneskja sem flettir upp í excel-skjali og skoðar einhverja leikskóla, langt símtal og erfitt að ná inn og svona, þetta er búið.
Hver er meðalaldur barna þegar þau eru að komast inn á leikskóla í Reykjavík? Ég held að þetta séu gögn sem fólk teldi nauðsynlegt að hafa við höndina?
„Já, meðalaldur, þetta er svona leikur sem flokkarnir í minnihlutanum, þetta er kannski svolítið nýtt fyrir mann sem...“
Þetta er ekki leikur.
„Jú þetta er ákveðinn pólitískur leikur að miða við meðaltölin því að ég hef tekið eftir því að kollegar mínir í borgarstjórn spyrja alltaf á ákveðnum tíma á vorin, rétt áður en úthlutunin fer fram...“
Nú er ég bara að spyrja hér.
„Já ég veit það, en þá birtast einhverjar tölur.“
En fólk er að eignast börn og það er að reyna að átta sig á hvenær það getur gert ráð fyrir að koma barninu inn á leikskóla og vandinn er sá, eins og þú þekkir að fólk klárar fæðingarorlof og öll réttindi í þeim efnum og þarf enn að brúa, jafnvel eitt ár í mjög mörgum tilvikum, og þess vegna er þetta tölfræði sem skiptir mjög miklu máli bara til þess að fólk átti sig á því hvar það stendur.
„Já, já. Til þess er leikskólareiknirinn til þess að...“
Þess vegna er þetta ekki leikur.
„Eitt við það að koma nýr inn í borgarmálin er að finna það á eigin skinni hvernig sumir stjórnmálamenn leika sér að því að ýkja vandann, búa til óánægju, búa til einhvernvegin stuðningsmenn fyrir sinn flokk til þess að róa á ótta foreldra.“
Þetta er bara eðli stjórnmálanna. Ég er ekki að spyrja hér fyrir hönd einhverra flokka.
„Ég verð að segja að mér leiðist það eðli stjórnmálanna. ÉG er bara í því að reyna að leysa leikskólavandann. Við erum með pólitíska forystu fyrir því að forgangsraða fjármagni í uppbyggingu leikskólakerfisins. Það hafa verið teknar ákvarðanir á undanförnum árum um að fara í stórfellt viðhaldsátak sem hefur fækkað plássum tímabundið. Núna eru 350 pláss úti vegna þess að það er verið að gera við gamla leikskóla sem eru ekki heilnæmir vegna raka og mygluvandamála.“
En þetta svarar ekki spurningunni Einar. En ég er með spurningu um það hversu gömul börnin eru þegar þau komast inn á leikskóla. Það eru foreldrar ungra barna...
„Já ég er ekki með þær upplýsingar. Ekki frekar en önnur sveitarfélög sem eru núna akkúrat á þessum mánuðum núna...“
Þú bendir bara á einhverja aðra. Af hverju getur Helgi Grímsson með þennan her starfsmanna á skóla- og frístundasviði ekki svarað því?
„Ég skal svara því. Ástæðan er sú að núna er verið að ráða inn á leikskólana. Það er gert eftir sumarvinnuna hjá skólafólki og sumir fara inn í starfsemi borgarinnar, leikskólana og aðra starfsemi.“
Það er verið að ráða og reka fólk allt árið um kring, aðallega að ráða það.
„Já, en þetta er bara verklagið hjá okkur og öðrum sveitarfélögum.“
En þarf ekki þá að breyta því fyrst þið hafið enga yfirsýn?
„Ef þú getur barið í pípuhatt og töfrað upp leikskólakennara þá ert þú bara ráðinn hér í þessu viðtali. Það er bara ekki þannig. Mín tilfinning er sú að við gætum byggt 100 leikskóla, eða 200 leikskóla í dag en það myndi ekki leysa leikskólavandann. og þetta er þetta flókna eðli þessa þjónustuþáttar í starfsemi borgarinnar, okkur vantar starfsfólk. Og það gladdi mig mjög að sjá það núna nýlega í yfirlýsingu hins opinbera þar sem ríkið og sveitarfélögin lýstu því yfir í aðdraganda kjarasamninga að þau ætluðu að endurskoða lagaumgjörð leikskólastigsins, með það að markmiði að brúa saman bilið því þetta er verkefni okkar sem samfélags. Sveitarfélögin eiga erfitt með að ráða við þetta þegar það vantar starfsfólk, en auðvitað vantar alltaf fjármagn...“
En Dagur B. Eggertsson og meirihlutinn, allir flokkarnir voru að lofa því að leysa þennan vanda kviss, bang, búmm.
„Já, ég er rosalega feginn því að hafa ekki lofað því að taka inn 12 mánaða gömul börn inn á leikskólana, því ég hef setið í þínu sæti og spurt stjórnmálamenn þessara nákvæmlega sömu spurninga.“
En þú veist ekki hvort þú ert að taka inn 12 mánaða börn eða eitthvað annað því þið hafið ekki yfirsýn yfir það.
„Jú, jú, við vitum að við erum ekki að taka inn 12 mánaða börn. Þess vegna lofaði ég því ekki fyrir síðustu kosningar. Ég sagði bara við foreldra, regluarnar kveða á um að 18 mánaða börn eigi að vera komin inn. ÉG treysti mér til að standa við það en ég ætla ekki að lofa því að 12 mánaða börn fari inn því ég gef ekki loforð sem ég get ekki staðið við.“
En finnst þér ásættanlegt að embættismennirnir þínir geti ekki svarað þessu? Ef ég væri að reka fyrirtæki og væri forstjóri og framkvæmdastjórarnir mínir gætu ekki svarað því hvaða þjónustu væri verið að veita eða hvernig hún kæmi út þá væri mér nú ekki alveg sama.
„Já, allt er þetta spurning um á hvaða tímapunkti þú spyrð. Í september, þegar við erum komin með starfsfólkið inn og börnin inn á leikskólana þá sjáum við hversu mörg þriggja og fjögurra ára gömul börn eru að flytja sig á milli og hversu margir eru að koma úr öðrum skólum... “
En ertu að segja mér að skóla- og frístundasvið ráði enga inn eftir ágústmánuð?
„Þau eru að ráða allan ársins hring.“
En þá hlýtur þetta að vera fljótandi.
„En stóra ráðningartímabilið er á þessum tíma ársins og þetta er bara svona hjá Reykjavíkurborg og öllum öðrum sveitarfélögum. “
Og þið ætlið ekki að breyta því.
„Ég skil vel að þetta sé flókið en svona er það. En við erum stanslaust að reyna...“
En mér finnst þetta ekki flókið, sá er munurinn.
„En kannski vantar aðeins meiri upplýsingar hjá þér til að skilja það hvernig þetta gengur fyrir sig.“
Ég er að biðja um þær.
„Bottom line er þetta. Við forgangsröðum fjármagni í leikskólamálin, bæði í uppbyggingu húsnæðisins, í viðhalda á því, að ráða inn starfsfólkið, að beita nýjustu og öllum aðferðum sem við getum til að fjölga plássum en tryggja góða menntun.“
En ekkert virkar.
„Jú, það virkar og við erum að vaxa og við erum að fjölga leikskólum á hverju einasta ári. Og það má ekki gleyma því að þetta er ekki lögbundin þjónusta og við höfum séð kostnaðarþátttöku foreldra fara úr 30% fyrir 20 árum niður fyrir 10% núna.“
En það er önnur pólitísk umræða.
„Já en hún hlýtur að vera hluti af því hvað það er sem skiptir okkur sem samfélag. Ég fór nú á viðskiptaþing um daginn og ég spurði salinn, stútfullan af fólki í jakkafötum, hver er ykkar samfélagslega ábyrgð? “
Viltu meiri samkeppni, viltu einkaaðila að borðinu?
„Að sjálfsögðu. Mín persónulega skoðun er sú.“
Meirihlutinn vill það ekki.
„Jú, ég held að það sé alveg svigrúm fyrir það. Að styrkja dagforeldrakerfið, að fá fyrirtækin í landinu til að sýna samfélagslega ábyrgð með því að styðja við rekstur sjálfstætt rekinna skóla og útvega húsnæði. Koma með nýjar hugmyndir. Að sýna samfélagslega ábyrgð er ekki bara að kaupa auglýsingu á íslenska landsliðsbúninginn fyrir EM. Takið þátt í því með samfélögunum...“
Þetta er áeggjan til þeirra.
Viðtalið við Einar Þorsteinsson má sjá í spilaranum hér að neðan.