Minnast hetjudáðar í Vöðlavík

Morgunblaðið 11. janúar 1994. Myndin sem Ágúst heitinn Blöndal tók …
Morgunblaðið 11. janúar 1994. Myndin sem Ágúst heitinn Blöndal tók var send yfir netið, sem var nýmæli.

Minnst verður austur á landi með hátíðlegri athöfn nú um helgina að í ár eru liðin 30 ár frá því að björgunarsveit bandaríska varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli vann sitt frækilega afrek við björgun skipverja af dráttarbátnum Goðanum sem fórst í Vöðlavík. Væntanlegir eru á staðinn nokkrir úr áhöfnum tveggja þyrlna bandaríska hersins, menn sem flugu austur í versta veðri þegar öll sund virtust lokuð. Með því tókst að bjarga sex skipverjum af Goðanum við afar erfiðar aðstæður. Sjöunda skipverjann af dráttarbátnum tók út áður en til björgunar kom.

Væntanlegir eru til Vöðlavíkur margir þeir sem tóku þátt í þessari björgunaraðgerð, svo sem fyrrverandi varnarliðsmenn, björgunarsveitarmenn, lögregla og fulltrúar Landhelgisgæslunnar og Fjarðabyggðar. Björgunarsveitarmenn á Austurlandi munu flytja þá sem viðburðinn sækja og koma austur með flugi til Egilsstaða og svo áfram í Vöðlavík. Athöfn þar hefst á hádegi og mun þyrla frá Landhelgisgæslunnni mæta á svæðið. Þar verða flutt ávörp og fleira. Ahöfnin stendur fram eftir degi, en að henni lokinni stendur bæjarstjórn fyrir móttöku í Randulffssjóhúsinu á Eskifirði fyrir þá sem að málum hafa komið.

Ærin ástæða þykir til að minnast atburða þessara, en þegar komið er suður aftur verða móttökur fyrir þá sem í björgunarafrekinu stóðu hjá dómsmálaráðherra, Landhelgisgæslunni og bandaríska sendiherranum.

Börðust í mótvindi

Björgunarafrekið í Vöðlavík var unnið 10. janúar 1994. Nokkru fyrir áramót hafði togbáturinn Bergvík VE strandað í Vöðlavík, sem er mót opnu hafi rétt norðan við mynni Eskifjarðar. Nokkrar árangurslausar tilraunir höfðu verið gerðar til að ná bátnum út og ráð þótti því að kalla dráttarbátinn Goðann til. Dráttarbáturinn var kominn austur og aðgerðir voru í undirbúningi þegar brot gengu yflr svo drapst á vélum og öðrum tækjum Goðans, sem rak upp á grynningar í Vöðlavík. Þetta gerðist að nóttu til og þegar björgunarsveitarmenn komu á staðinn sáu þeir hvað gerst hafði og að björgun yrði ekki komið við öðruvísi en með þyrlu. Gæsluþyrla lagði af stað en var snúið við sökum óveðurs og ísingar. Þá fóru varnarliðsþyrlurnar af stað og flugu austur „og þurftu að berjast gegn mótvindi og þungu slydduregni alla leiðina“, eins og sagði í frétt Morgunblaðsins.

„Aðstæður voru ógnvekjandi. Goðinn lá í briminu um 150 metra frá ströndinni og 8-9 metra háar öldur brutu á honum ofanverðum þegar við komum að strandinu. Aðstæður mannanna um borð voru hinar verstu. Þeir ríghéldu sér í reykháf skipsins, handrið og annað það sem var fast á brúarþakinu,“ sagði Sills undirofursti, yfirmaður flugsveitarinnar, í samtali við Morgunblaðið á þessum tíma.

„Miðað við aftakaveður og aðstæður á strandstað finnst mér ástæða til að tala um björgunaraðgerð þyrlusveitarinnar sem mjög frækilegt afrek, sem jaðrar við að vera ofurmannlegt,“ sagði Karl Eiríksson, þáverandi formaður flugslysanefndar, við blaðið.

Fyrir tilvijun í Neskaupstað

Eftir að skipverjum var bjargað af Goðanum stefndu þyrlurnar á Egilsstaði um Mjóafjörð en náðu ekki vegna veðurs. Flugmenn fygldu því ljósum og lentu nánast fyrir tilviljun í Neskaupstað þar sem skipbrotsmönnum var komið undir læknishendur. Þar var tekin fyrir Morgunblaðið mynd af áhöfnum þyrlnanna og þótti hún fanga vel gleði yfir unnu afreki.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 15. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert