Orlofsfé Dags einsdæmi

Hvorki forsætisráðherra né aðrir ráðherrar geta flutt ónýtt orlof milli …
Hvorki forsætisráðherra né aðrir ráðherrar geta flutt ónýtt orlof milli ára. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Uppgjör orlofs Dags B. Eggertssonar fyrrverandi borgarstjóra er einsdæmi meðal æðstu stjórnenda ríkisins og bæjarstjóra helstu sveitarfélaga.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Dagur fékk sem kunnugt er greitt orlof fyrir 69 ótekna orlofsdaga, sem hann hefur safnað upp á tíu árum í borgarstjórastóli, alls um 9,7 milljónir króna.

Í svörum frá embættismönnum í ráðhúsi Reykjavíkur er jafnan vísað til þess að kaup og kjör borgarstjóra miðist að miklu leyti við forsætisráðherra.

Það á hins vegar ekki við um fyrirkomulag vegna orlofs. Hvorki forsætisráðherra né aðrir ráðherrar geta flutt ónýtt orlof milli ára.

Skýrt hjá ráðherrum og forseta

Í reglum kjara- og mannauðssýslu fjármálaráðuneytis er skýrt kveðið á um að heimild ráðherra til að fara í orlof flytjist ekki á milli orlofstökutímabila.

Þegar ráðherra lætur af embætti er áunninn orlofsréttur þess orlofsárs gerður upp, ekki uppsafnað en ónýtt orlof frá fyrri tímabilum.

Svipuðu máli gegnir hjá annarri æðstu stjórn ríkisins. Hjá forsetaembættinu er þetta raunar enn skýrara, en óteknir orlofsdagar forseta Íslands hafa til þessa einfaldlega ekki verið reiknaðir út eða greiddir þegar forseti lætur af embætti.

Ekki reynir á þetta á Alþingi, því alþingismenn ávinna sér ekki orlof og ekki um neitt orlofsuppgjör að ræða. Hið sama á við um borgarfulltrúa.

Dómarar safna að öllu jöfnu ekki óteknu orlofi

Svipaða sögu er að segja úr Hæstarétti, því enda þótt dómarar þar öðlist orlof, þá taka þeir það allir út í réttarhléi á sumri og því safnast að öllu jöfnu ekki upp óteknir dagar. Þegar dómarar láta af störfum er áunnið orlof frá liðnu sumri gert upp.

Hjá stærstu bæjarfélögum öðrum eru nokkuð áþekkar reglur um orlofsréttindi. Þar tíðkast ekki heldur að safna upp orlofi, heldur þvert á móti lögð á það nokkur áhersla að fólk taki út sitt orlof.

Það á við um bæjarstjórana sem aðra starfsmenn. Þar hefur þó verið rými til þess að flytja daga milli ára, yfirleitt þó aðeins ef sérstaklega stendur á og ekki fleiri en eins árs, t.d. vegna veikinda, fæðingarorlofs eða ámóta. Við uppgjör vegna starfsloka eru þeir dagar gerðir upp.

Eins fyrir allt starfsfólk

Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri segir við Morgunblaðið að við starfslok gerist það sjálfkrafa í launakerfi borgarinnar að áunnið orlof komi til greiðslu.

Það sé framkvæmt eins fyrir allt starfsfólk borgarinnar og samkvæmt sömu reglum, þar með talið borgarstjóra.

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segist hafa fengið þau svör frá mannauðssviði borgarinnar að uppgjörið á orlofi Dags væri algerlega í samræmi við starfslok annarra starfsmanna.

Frekari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert