Ríkislögreglustjóri hefur sent heilbrigðisstarfsmönnum bréf til að upplýsa þá um hvernig eigi að meðhöndla sjúklinga sem hafa verið skotnir með rafbyssum.
Í bréfinu sem mbl.is hefur undir höndum kemur fram að miðað við tegund og styrk vopnsins má gera ráð fyrir nokkrum flokkum áverka sem beiting þess getur haft í för með sér, beint eða óbeint.
Eru dæmi nefnd eins og áhrif á rafstarfsemi hjartans, áverkar frá pílum, sérstaklega ef píla skyldi hæfa auga, áverkar vegna falls þegar einstaklingur verður fyrir rafáhrifum í vöðvum og áverkar vegna kröftugs samdráttar í vöðvum.
Ekki er vitað nákvæmlega hvenær lögreglan mun byrja að bera rafbyssur en til stóð að byrja á því í sumar. Bréf ríkislögreglustjóra var sent nýlega á heilbrigðisstarfsfólk og má því gera ráð fyrir því að það styttist í að lögreglan byrji að bera rafbyssur.
Lögreglan á Íslandi mun notast við rafbyssur af gerðinni Taser 10 (T10) sem eru framleiddar af Axon. Rafbyssurnar skjóta frá sér pílum sem gefa frá sér 22-44 rafpúlsa á sekúndu í fimm sekúndna hrinum. Rafstraumurinn hefur tímabundin áhrif á viljastýrðar vöðvahreyfingar.
„Einstaklingurinn finnur fyrir miklum sársauka og vöðvar viðkomandi herpast saman sem getur valdið því að einstaklingur fellur niður, eftir því hvar pílurnar hæfa en það er hluti af þjálfun lögreglumanna að taka tillit til öryggis í umhverfinu eins og frekast er unnt þegar rafvarnarvopninu er beitt,“ segir í bréfinu.
Fram kemur að einstaklinga, sem bera einkenni þess að vera með æsingsóráðsheilkenni [sturlunarástand og hækkaður líkamshiti] eftir að hafa verið skotnir með rafbyssu, þurfi að rannsaka vandlega.
„Ekki er ástæða til að ætla að óráð eða aukinn líkamshiti orsakist af beitingu rafvarnarvopnsins, heldur er ástæðan frekar t.d. áhrif vímuefna. Þau fáu dæmi um brátt andlát sem þekkt eru eftir beitingu rafvarnarvopna tengjast oft æsingsóráðsheilkenni,“ segir í bréfinu.
Engin gögn benda til þess að rafbyssur geti haft áhrif á gangráð eða ígrætt hjartastuðtæki, að er kemur fram í bréfinu.
Ef einstaklingur er skotinn með rafbyssu og er aðeins með sár eða roða þar sem hann var hæfður nægir skoðun og venjuleg sárameðferð og mögulega hjartalínurit.
Ef sjúklingurinn hefur fallið illa við að missa viljastýrða stjórn á vöðvum þegar vopninu var beitt þá þarf að meta afleiðingar fallsins sem slíks.
„Notkun rafvarnarvopna, úðavopna og kylfu eru á sama stigi valdbeitingar og
val um hvaða vopn er notað byggir á mati lögreglumanns á því hvaða vopn sé heppilegast að
nota miðað við aðstæður hverju sinni. Notkun rafvarnarvopna kann þannig að vera vægari
aðgerð en til dæmis að nota kylfu,“ segir í bréfinu.