Kjörísdagurinn í Hveragerði var haldinn hátíðlegur í dag og er áætlað að um 22 þúsund manns hafi mætt. Þá vöktu Sunneva Einarsdóttir og Birta Líf, þáttstjórnendur Teboðsins, mikla lukku.
„Ísdagurinn tókst alveg gríðarlega vel til. Bara vonum framar,“ segir Elías Þorvarðarson, markaðsstjóri Kjöríss, í samtali við mbl.is.
Yfir 200 þúsund skammtar af ís voru gefnir út og miðað við það þá áætlar Elías að um 22 þúsund manns hafi látið sjá sig.
Hann segir að fólk hafi komið víða að til mæta á Kjörísdaginn. Þannig myndaðist umferðarteppa á leiðinni í Hveragerði á meðan hátíðin stóð yfir.
„Ég sá þarna marga frá Suðurnesjum þannig það er ljóst að fólk er að koma víða að. Við tókum líka eftir því að á tímabili þá náði umferðin vel upp alla Kambana og ég heyrði það frá fólki sem mætti á svæðið að það hafi verið farið að finna fyrir áhrifum biðraðar strax við skálann í Hveradölum,“ segir Elías.
Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Kjörís setti hátíðina og svo var Villi Naglbítur kynnir. Áhrifavaldarnir Sunneva Einarsdóttir og Birta Líf voru á svæðinu en fyrir sex vikum kom Bestís, vörutegund frá Kjörís í samstarfi við þær tvær, á markað.
„Þær vekja náttúrulega alls staðar lukku,“ segir Elías aðspurður en þær eru einnig með hlaðvarpsþáttinn Teboðið.
„Ég var að reyna að rölta með þeim um svæðið til að sýna þeim eitthvað og þær fá hvergi frið hvert sem þær mæta. Þetta eru bara stórstjörnur á Íslenskum mælikvarða,“ sagði hann og bætti því við að erfitt sé fyrir Kjörís að anna eftirspurn á ísnum.
Eins og hefð er fyrir þá var boðið upp á svokallaða furðuísa. Þar kennir ýmissa grasa en að sinni var boðið upp á harðfiskís, laxaís, beikonís og fleira.
„Þetta er svona meira til gamans gert heldur en eitthvað annað því öll höfum við gaman af því að prófa eitthvað sérstakt. En inn á milli erum við að nota tækifærið og gera tilraunir með ýmislegt nýlegt,“ segir hann.
Biscoff-ísinn var einn af þessum furðuísum en hann fékk svo góðar viðtökur að ekki er útilokað að hann fari í verslanir.