Áhugamaður um stríðsminjar afhjúpar söguna

Varðveislumenn minjanna. Frá vinstri: Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Níels Ómarsson, Brynjar …
Varðveislumenn minjanna. Frá vinstri: Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Níels Ómarsson, Brynjar Karl Óttarsson, Arnar Birgir Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

Brynjar Karl Óttarsson, grunn- og framhaldsskólakennari á Akureyri, hefur lengi haft mikinn áhuga á sögu og fornminjum. Áhugi hans á minjum frá seinni heimsstyrjöldinni hefur leitt til óvæntra uppgötvana á Íslandi.

Fjallar hann um þær á vefsíðunni Grenndargralið, sem hann heldur úti.

Á þeirri síðu fer hann út í sögulega atburði og setur inn myndir af þeim minjum sem hann finnur. Einnig er Brynjar með hlaðvarp sem heitir Sagnalist þar sem hann talar um sögulega atburði. 

Brynjar Karl Óttarsson er mikill áhugamaður um sögu og forngripi.
Brynjar Karl Óttarsson er mikill áhugamaður um sögu og forngripi. Ljósmynd/Aðsend

Frá fornleifum yfir í sagnfræði 

Brynjar rifjar upp hvernig áhugi hans á fornleifum hófst á unga aldri.

„Sem krakki þá ætlaði ég að verða fornleifafræðingur, þannig það hefur alltaf verið þessi áhugi á fornminjum,“ segir Brynjar. Hann ákvað þó síðar að beina athyglinni meira að sagnfræði og hefur kennt sögu í mörg ár, bæði í grunnskóla og á framhaldsskólastigi.

Fyrir um sjö árum síðan var Brynjar á göngu í Hlíðarfjalli þegar hann rakst á skothylki sem kveikti áhuga hans. Þetta leiddi hann til frekari rannsókna á svæðinu, þar sem hann fann fleiri skotfæri og komst að því að breskir hermenn hefðu líklega æft sig á þessu svæði í vetrarhernaði.

„Ég fór þá bara aftur og fann meira og ég er enn þá að finna hluti,“ segir Brynjar.

Coca Cola-flöskur sem fundust á gömlu æfingarsvæði hermanna.
Coca Cola-flöskur sem fundust á gömlu æfingarsvæði hermanna. Ljósmynd/Grenndargralið

Fann þýskt skot og munnhörpu 

Brynjar hefur fundið margar og ýmsar minjar frá stríðsárunum. „Mér finnst þetta þýska skot sem ég fann fyrir nokkrum dögum vera mjög sérstakt og merkilegt. Það er dálítil ráðgáta hvernig það komst hingað upp í fjall,“ segir hann.

„Ég hef mjög gaman af því að skoða öll þessi skot því þetta er svo rosalega mikið úrval af skotum úr alls konar skotvopnum og þetta er bara heill heimur. Þetta er svo vel merkt, það eru ártöl á þessu og það eru merkingar framleiðenda. Það er svo mikið af upplýsingum sem maður getur lesið út úr þessum skotum, hvenær þeir voru hérna, hver framleiddi þetta og fleira. Þannig það er svona ákveðin nördaheimur sem ég hef dottið inn í,“ segir Brynjar.

„Svo eru það líka þessir persónulegu munir sem snúa kannski ekki beint að hernaði, en það er alltaf gaman að finna silfurgaffla, silfurskeiðar, munnhörpu og ýmislegt svona sem að tengist þeirra lífi hérna upp í fjallinu þegar þeir voru ekki að æfa sig að skjóta og sprengja,“ bætir hann við.

Þýskt byssuskot sem fannst í Hlíðarfjalli.
Þýskt byssuskot sem fannst í Hlíðarfjalli. Ljósmynd/Grenndargralið

Notar minjarnar í kennslu

Brynjar geymir alla þá muni sem hann hefur fundið á ferðum sínum en myndi þó vilja koma þeim á safn. Munirnir eru þó ekki taldir forngripir þar sem þeir eru ekki orðnir 100 ára gamlir, en Brynjar hefur vonir um að safn muni taka við þeim í framtíðinni svo almenningur geti séð þessar merkilegu minjar.

„Það er ekki markmið að við eigum þetta, við viljum koma þessu fyrir einhvers staðar þar sem almenningur fær að njóta.“

Brynjar hefur þó fundið leið til þess að nota þessar minjar og tók upp á því að nota þær í kennslu.

„Ég nota þetta óspart í kennslu og það er rosalega gaman þegar maður er að kenna um stríðsárin að geta komið með þessa gripi og sýnt krökkunum. Leyfa þeim að handleika söguna í staðinn fyrir að vera alltaf að lesa um eitthvað í bókum eða netinu.“ segir Brynjar. 

Gaffall sem var notaður af breskum hermönnum.
Gaffall sem var notaður af breskum hermönnum. Ljósmynd/Grenndargralið

Sprengjufundir í Hlíðarfjalli

Spurður út í sprengjufundi hans segir Brynjar að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hann finnur sprengjur í göngum sínum.

„Þetta er önnur mortar-sprengjan sem ég finn á þessum slóðum, ég fann aðra fyrir tveimur árum,“ segir hann. Slíkar sprengjur eru notaðar í sprengjuvörpur og eru hluti af þeim herminjum sem Brynjar hefur fengið að kynnast á Íslandi.

Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að eyða sprengjunni sem Brynjar fann, en hann segir að hann sé farinn að þekkja útlitið á þessum sprengjum ágætlega og vissi því strax að um sprengju væri að ræða.

Að ganga í fótspor hermanna

Brynjar er hluti af hópi sem kallar sig Varðveislumenn minjanna. Hópurinn hittist reglulega og ræðir um áhugamál sitt, en þau sameina útivist og sögulegar rannsóknir. Þeir leita oft saman að minjum frá stríðsárunum og njóta þess að afhjúpa hinar merku sögur stríðsáranna á Íslandi.

Brynjar hefur hug á að opna fyrir fleiri tækifæri fyrir almenning til að kynnast þessum svæðum og sögu þeirra. Hann íhugar að bjóða upp á ferðir þar sem fólk fær að ganga í fótspor hermanna.

„Við erum komnir með býsna góða mynd af því hvert þeir fóru og hvað þeir voru að gera. Þetta er saga og staður sem er algjörlega hulinn Akureyringum og fólki almennt.“

Brynjar og hópurinn hans hafa fundið marga áhugaverða gripi í gegnum árin, þar á meðal hring sem Brynjar telur að hafi tilheyrt liðsforingja í ameríska hernum.

Einnig hafa þeir fundið gosflöskur, varalit og naglalakk sem líklega tilheyrði hjúkrunarkonu á herspítalanum á Hrafnagili, þar sem 49th Station Hospital var staðsettur á stríðsárunum.

Hringur sem er talinn hafa verið í eigu liðsforingja í …
Hringur sem er talinn hafa verið í eigu liðsforingja í bandaríska hernum. Ljósmynd/Grenndargralið
Naglalakk sem talið er að hafi verið í eigu hjúkrunarfræðings …
Naglalakk sem talið er að hafi verið í eigu hjúkrunarfræðings frá herspítalanum. Ljósmynd/Grenndargralið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert