Bætt nýting með nýja Herjólfi

Herjólfur leggur af stað frá Landeyjum til Vestmannaeyja fyrir síðustu …
Herjólfur leggur af stað frá Landeyjum til Vestmannaeyja fyrir síðustu verslunarmannahelgi með káta þjóðhátíðargesti um borð. Flesta daga í sumar hefur skipið farið átta ferðir mbl.is/Eyþór

Nýtingarhlutfall Landeyjahafnar hefur hækkað umtalsvert eftir að nýr Herjólfur hóf siglingar milli Vestmannaeyja og lands í júní 2019.

Í töflu sem birt er í nýútkomnum Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar má sjá hvernig nýtingarhlutfall hafnarinnar breyttist þegar hið nýja skip, Herjólfur IV, hóf siglingar.

Á árunum 2011 til 2019 var siglt til Landeyjahafnar (Herjólfur III) 1.523 daga af 2.965 eða í 51% daga. Ef teknir eru með þeir dagar þar sem siglt var hluta úr degi til Landeyjahafnar hækkar hlutfallið í um 57%.

Á árunum 2019 til 2023 sigldi Herjólfur IV 1.185 daga til Landeyjahafnar af 1.680 eða í 71% tilvika. Ef teknir eru með þeir dagar þar sem siglt var hluta úr degi til Landeyjahafnar hækkar hlutfallið í um 80%.

„Þetta gjörbreytir aðstæðum enda lokast höfnin nú ekki mánuðum saman yfir veturinn, heldur koma alltaf dagar og vikur inn á milli þar sem hægt er að sigla þó dýpkunin gangi ekki sem skyldi,“ segir í Framkvæmdafréttum.

Nýi Herjólfur var sérstaklega hannaður til að sigla inn í Landeyjahöfn og gat þannig siglt inn í höfnina á mun minna dýpi en eldri ferjan, enda djúprista skipsins 1,5 metrum minni en á því gamla. Ef aldan er ekki há getur Herjólfur nú siglt í Landeyjahöfn á 3,0 metra dýpi á flóði. Þessar breyttu forsendur opnuðu möguleikann á því að halda höfninni opinni allt árið.

Eldgosið breytti miklu

Bygging Landeyjahafnar hófst árið 2008 og stóð til 2010, þegar höfnin var tekin í notkun. Suðurverk sá um framkvæmdir sem snerust um byggingu tveggja 600 metra langra ytri brimvarnargarða, innri garða og 70 metra steyptrar staurabryggju ásamt ekjubrú. Einnig var lagður 12 kílómetra langur vegur að höfninni.

Landeyjahöfn var tekin í notkun í júlí 2010. Tveimur mánuðum fyrr hófst eldgos í Eyjafjallajökli sem setti strik í reikninginn varðandi notkun hafnarinnar. Mikið magn gosefna skolaðist fram með Markarfljóti og safnaðist fyrir við höfnina.

„Þannig fór dýpið framan við hana úr um -11,0 metrum í um -8,0 m. Fara þurfti í miklar dýpkanir en verkið var seinlegt þar sem gosefnið var létt og erfitt að dæla því burt. Þegar efnið settist á botninn innan hafnar pakkaðist það í hart lag sem seinlegt var að dæla,“ eins og ástandinu er lýst í Framkvæmdafréttum.

Allar götur frá 2010 hefur verið unnið sleitulaust að dýpkun Landeyjahafnar og hefur ríkissjóður varið tæpum fimm milljörðum króna til þessa verkefnis. Fjögur dýpkunarfyrirtæki, íslenskt og erlend, hafa komið að verkinu frá upphafi. Núgildandi samningur er milli Vegagerðarinnar og Björgunar ehf., sem notar dýpkunarskipið Álfsnes til verksins.

Fyrstu fimm árin sem höfnin var opin var unnið að því að dýpka yfir vetrarmánuðina en síðan varð ljóst að ekki þýddi að reyna að halda höfninni opinni frá nóvember og fram í apríl vegna sandburðar og hreyfingar á gosefni. Dýpkunarskipin héldu ekki í við sandflutningana í hafinu.

Landeyjahöfn varð því hálfgerð sumarhöfn þar til úr rættist með tilkomu nýja Herjólfs. Aðstæður hafa þó verið misjafnar milli ára og síðasti vetur var t.d. óhagstæður og þurfti Herjólfur að sigla mun fleiri ferðir til Þorlákshafnar en veturinn á undan.

Fram kemur í Framkvæmdafréttum að verið sé að skoða nokkra möguleika til að bæta aðstæður við Landeyjahöfn enn frekar og auka nýtingu hennar yfir vetrartímann. Meðal annars er til skoðunar hvort hægt verði að færa ós Markarfljóts í tveggja til fjögurra kílómetra fjarlægð frá höfninni.

Frekari rannsóknir eru fram undan til að kanna fýsileika þessarar hugmyndar en framkvæmdin sé að sjálfsögðu háð samningum við landeigendur og umhverfismati. Þessi framkvæmd er talin geta kostað um 600 milljónir króna.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 15. ágúst. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert