Reykjanesbær býður íbúum í Hafnarfirði, Kópavogi, Álftanesi, Garðabæ, Norðlingaholti, Breiðholti, Hólmsheiði og Almannadal að nýta sér aðstöðu í vatnsleikjagarðinum Vatnaveröld án endurgjalds í næstu viku.
Heitavatnslaust verður á þessum svæðum frá mánudagskvöldi til miðvikudags. Ástæða heitavatnsleysisins er sú að vinna stendur yfir að tvöfalda suðuræð, sem er flutningsæð og flytur vatn frá Reynisvatni og á stóran hluta af höfuðborgarsvæðisins. Í lok þessa mánaðar verður hluti hennar tekin í notkun.
Í tilkynningu frá Reykjanesbæ segir að íbúar bæjarins vilji endurgjalda sams konar boð þegar heitavatnslaust varð á Suðurnesjum í vetur.
„Með þessu vilja íbúar Reykjanesbæjar endurgjalda sams konar boð þegar heitavatnslaust varð í nokkra sólarhringa á Suðurnesjum síðastliðinn vetur þegar hraunrennsli rauf lögnina sem flytur heitt vatn frá Svartsengi til íbúa á Suðurnesjum,“ segir í tilkynningunni.