Víkingasafnið „1238 The Battle of Iceland“ heldur nú úti þremur gestasýningum erlendis. Á sýningunni er hægt að sjá Örlygsstaðabardaga í gegnum sýndarveruleika.
Safnið hóf fyrst starfsemi sína á Sauðárkróki árið 2019 og stendur þar enn. Þar gefst gestum tækifæri á að upplifa Örlygsstaðabardaga í gegnum sýndarveruleika en hann var afdrifamikill fyrir sögu landsins er við misstum sjálfstæði okkar undir Noregskonung árið 1262.
Nú hefur sýningin teygt sig út fyrir landsteina. Safnið heldur úti einni sýningu í Ungverjalandi í borginni Eger og tveimur sýningum í Vestfold-fylki í Noregi.
Að sögn Freyju Rutar Emilsdóttur framkvæmdastjóra safnsins er Vestfold-fylki í mikilli þróunarvinnu með víkingatengda ferðaþjónustu og er sýningin einn liður í þeirri vinnu.
Á sýningunum gefst gestum tækifæri til að taka þátt í Örlygsstaðabardaga í gegnum sýndarveruleika og ferðast þá aftur til Skagafjarðar árið 1238, þegar bardaginn átti sér stað.
Að sögn Freyju hafa Norðmenn tekið einstaklega vel í sýninguna enda vel tengdir við landið. „Það er vel tekið í þetta enda tengist þetta Norðmönnum því Snorri Sturluson dvaldi mikið í kringum Túnsberg þegar hann var í Noregi. Þá er þetta líka sagan af því hvernig Norðmenn náðu yfirráðum á Íslandi,“ segir hún.
Spurð hvernig hafi tekist til að halda sýninguna í Ungverjalandi segir Freyja það hafa gengið vel. Hins vegar hafi reynst erfiðara að finna beinar víkingatengingar við landið.
Verkefnið er fyrsta skrefið í samvinnu „1238 The Battle of Iceland” við söfnin í Noregi og Ungverjalandi þar sem unnið er að því að smíða sýndarveruleika þar sem hægt verður að taka þátt í sögulegum atburðum þeirra landa.
Þannig er unnið að því að smíða sýndarveruleikasýningu af örlagaríkum atburðum Ungverjalands frá árinu 1552. Þangað til sú sýning er tilbúin mun Örlygsstaðabardaginn vera í boði fyrir gesti.
Safnið á Sauðárkróki aðstoðar einnig söfnin tvö í Noregi við að setja upp sína eigin sýndarveruleikasýningu. Sýningin um Örlygsstaðarbardaga verður aftur á móti enn í boði þegar þeirra eigin sýning er tilbúin.
Þá segir Freyja að mikill áhugi sé á sýningunni í öðrum löndum og hafa þau meðal annars verið í samtali við írsk, sænsk og kanadísk söfn til þess að bjóða upp á upplifun í þeim löndum með aðstoð sýndarveruleikatækninnar.
Umfjöllunin birtist fyrst í Morgunblaðinu á föstudaginn.