Gríska listagyðjan Rena Rasouli

Rena kann vel við sig meðal siglfirsku fjallanna og segist …
Rena kann vel við sig meðal siglfirsku fjallanna og segist fá mikinn innblástur úr daglega lífinu. Ljósmynd/Aðsend

Gríska tríóið Arismari hélt tónleika fyrir gesti og gangandi í Þjóðlagasetrinu á Siglufirði í júlí. Klæðnaður og fas grísku söngkonunnar Renu Rasouli greip athyglina strax.

Rena er dökk yfirlitum og glaðleg en fyrst og fremst afbragðs listamaður. Hún skipar tríóið ásamt bræðrum sínum, George og Alex. Undir kraftmiklum og líflegum tónum krítverskrar þjóðlagatónlistar ferðaðist blaðamaður í huganum til Krítar, á baðströnd þar sem volgur sjórinn leikur við bera fæturna í flæðarmálinu.

Arismari tríó. Rena skipar tríóið ásamt bræðrum sínum Alex og …
Arismari tríó. Rena skipar tríóið ásamt bræðrum sínum Alex og George. Ljósmynd/Aðsend

Æskan á Grikklandi

Hin 34 ára Rena ólst upp í þorpinu Sisses, sem stendur á milli borganna Rethymnon og Heraklion á Krít. Hún lýsir tilveru sinni í barnæsku og segist hafa verið algjör stráka-stelpa, enda ólst hún upp með tveimur bræðrum.

Litlu hlutirnir í lífinu áttu hjarta hennar sem barn eins og að spila fótbolta, fara á ströndina eða hjálpa foreldrum sínum við að tína ólífur af ólífutrjánum. Náttúran er ofarlega í huga hennar þegar hún rifjar upp barnæskuna og er nálægðin við náttúruna, fjöllin og sjóinn eitt af því sem hún finnur svo sterka tengingu við á Siglufirði.

Ekki skortir á hæfileikana hjá Renu sem syngur gríska þjóðlagatónlist, …
Ekki skortir á hæfileikana hjá Renu sem syngur gríska þjóðlagatónlist, ásamt því að vera í elektrónísku dúói og vinna að eigin sóló tónlist, sem er sambland af ambient og grískri þjóðlagatónlist. Ljósmynd/Aðsend

Fjölhæfur listamaður

Auk tríósins Arismari er Rena í elektrónísku dúói, V.V.I.A., með danskri vinkonu sinni. Hún vinnur einnig að sinni eigin tónlist, undir nafninu Venus Volcanism, og segir hana eins konar blöndu af ambient og þjóðlagatónlist. Hún hefur gefið út tvær sólóplötur: Rizitiko og Tissue sem kom út á síðasta ári.

Búferlaflutningar

Lengi vel hafði Rena daðrað við hugmyndina um að flytjast brott frá Grikklandi en aldrei þorað það. Í maí 2021 fannst Renu vera réttur tímapunktur til að fara. Fljótlega eftir komuna til Íslands hóf hún störf í bakaríinu á Siglufirði, Aðalbakaríi.

Í fyrstu áttu flutningarnir að vera árstíðarbundnir. En þegar sumarið var á enda gat hún vel hugsað sér að upplifa haustið og jafnvel íslenskan vetur. Eftir það varð ekki aftur snúið. Rena segist samt seint eiga eftir að venjast kuldanum og myrkrinu. „Beinin í mér hreinlega þola það ekki!“ Bros læðist fram á varir hennar og hún hristir upp í síðu, dökku hárinu.

Rena segist þekkja fátt annað en að vinna önnur störf …
Rena segist þekkja fátt annað en að vinna önnur störf ásamt því að stunda tónlistina. Hún lítur fyrst og fremst á sig sem tónlistarmann. Ljósmynd/Aðsend

Engin listamannalaun

Rena segist þekkja fátt annað en að vinna önnur störf samhliða tónlistinni. Í Grikklandi eru engin listamannalaun í boði frá ríkinu þrátt fyrir að eitthvað sé um styrki til listamanna. Hins vegar geri aðstæður og laun hérlendis henni betur kleift að sinna listinni heldur en í Grikklandi. Hún er enn að minna sig á að hún sé fyrst og fremst tónlistarmaður, sem er vinna en ekki bara áhugamál, en þá þurfi líka að gefa tónlistinni pláss í daglegu lífi.

Ítarlegra viðtal við Renu Rasouli má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert