Halda sumargrill í heitavatnsleysinu

Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði.
Hrafnista á Hraunvangi í Hafnarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Árdís Hulda Eiríksdóttir, forstöðumaður Hrafnistu í Hafnarfirði, segir hjúkrunarheimilið ætla að halda sumargrill í heitavatnsleysinu í næstu viku.

Eins og fram hefur komið þá verður heita­vatns­laust í einn og hálf­an sól­ar­hring í öll­um Hafnar­f­irði, Kópa­vogi, Álfta­nesi, Garðabæ, Norðlinga­holti, Breiðholti, Hólms­heiði, Al­manna­dal og Norðlinga­holti frá klukk­an 22 næst­kom­andi mánu­dags­kvöld til há­deg­is á miðviku­deg­in­um 21. ág­úst.

„Gerum svolítið skemmtilegt úr þessu, gerum bara eitthvað allt annað og gleymum að það sé ekkert heitt vatn,“ segir hún í samtali við blaðamann mbl.is.

Til að koma í veg fyrir uppvask ætla þau að halda sumargrill með pappadiskum, vera með gos í dós og fá sér íspinna eftir á.

Síðasta baðið á mánudagskvöldinu

Árdís segir þau ætla að nýta tækifærið á mánudagskvöldinu til að fara í bað fyrir heitavatnsleysið.

Einnig vonist þau til þess að veðrið verði með besta móti en að þau muni annars reyna að halda hitanum inni og vera tilbúin með teppi og lopapeysur.

„Ég held við reynum bara að leysa þetta eins vel og hægt er,“ segir Árdís.

Heitavatnslaust verður á stóru svæði frá mánudagskvöldi til hádegis á miðvikudegi í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert