Íslendingur með í för þar sem mennirnir hröpuðu til bana

Tveir fjall­göngu­menn létu lífið í vik­unni þegar þeir hröpuðu rúm­an …
Tveir fjall­göngu­menn létu lífið í vik­unni þegar þeir hröpuðu rúm­an kíló­metra niður hlíð fjallsins Matter­horn í Sviss. Trausti hafði gengið með þeim fyrr um daginn en hann sneri við áður en lengra var haldið. Samsett mynd/Skjáskot/AFP

„Ég var bara þarna sama dag, þetta voru menn sem ég hafði hitt daginn áður og við borðuðum morgunmat saman.“

Þetta segir Trausti Már Ingason, Íslendingur sem hóf göngu upp Matterhorn í 22 manna hópi árla miðvikudagsmorguns. Trausti snéri við úr göngunni.

Tveir fjall­göngu­menn létu lífið í vik­unni þegar þeir hröpuðu rúm­an kíló­metra niður hlíð fjallsins Matter­horn í Sviss.

„Ég óttaðist fyrst að þetta hefðu verið feðgar sem ég gisti í herbergi með og hafði kynnst dálítið,“ segir Trausti sem frétti fyrst af slysinu þegar heim var komið, í gegnum fréttaflutning mbl.is.

Eftir smá fyrirgrennslan kom aftur á móti í ljós að um var að ræða tvo unga menn frá Sviss. Kveðst Trausti muna ágætlega eftir þeim. Þeir, feðgarnir og Trausti sjálfur voru allir án leiðsögumanns, ólíkt flestum öðrum úr hópnum sem hélt af stað upp fjallið.

Reyndi að vera samferða mönnunum

„Ég fann það að ég mæddist fljótt í þessu andrúmslofti. Maður er bara ekki vanur þessu,“ segir Trausti spurður hvað hafi gert að verkum að hann snéri við.

Hann segir hópinn sömuleiðis hafa farið ansi hratt vegna breyttrar veðurspár og hann hafi átt erfitt með að halda hópinn. Aðstæður hafi þegar ekki verið þær bestu vegna bleytu og brattar fjallshlíðarnar því ansi lausar.

Hann hafi reynt að hengja sig á Svisslendingana tvo en dregist svo mikið aftur úr að hann missti sjónar á þeim og þá ákveðið að snúa aftur á fjallahótelið.

„Það átti að koma þrumuveður um þrjúleytið en það hafði færst til klukkan tíu um morguninn svo þeir voru greinilega að flýta sér að ná á undan veðrinu. Svo ég missti svolítið af þeim,“ segir Trausti.

„Þó að ég sé í fínu formi á Esjunni þá voru þetta allt vanir menn sem fóru þarna hratt yfir og þá var ég orðinn einn í myrkri, ekki klár á leiðinni, þannig að fyrir mér var þetta ekki spurning.“

Heimafólkið ánægt með Trausta

Kveðst Trausti hafa yfirgefið fjallahótelið samdægurs og því ekkert heyrt af hvarfi mannanna fyrr en heim til Íslands var komið. Hélt hann í stað til næsta bæjar og datt þar á spjall við heimamenn og greindi þeim frá fýluferðinni.

„Ég varð strax bara aðalmaðurinn af því að ég snéri við. Ekki af því ég náði upp á toppinn. Þetta fannst heimafólki, sem þekkir til þarna, bara mjög skynsamlegt,“ segir Trausti.

Það hafi að sjálfsögðu verið svekkjandi og erfið ákvörðun þar sem hann hafi haft mikið fyrir leiðangrinum, eytt dágóðu fé í hann og ferðast alla leið frá Íslandi. Mikilvægt sé að hlusta á skynsemina og varnarbjöllur jafnvel þó að það séu vonbrigði.

Ferðin hafi þó ekki orðið honum til vonbrigða enda sé hann ánægður með ákvörðun sína. Hann hafi sömuleiðis áður gengið Matterhorn.

Hefði kannski ekki snúið við fyrir 20 árum

„Ég fór þarna fyrir 33 árum, 23 ára gamall, ungur og óhræddur, þá gekk þetta allt rosa vel upp. Þá var ég ljónheppinn með hóp og veður. Ég er í betra formi í dag en þegar ég var ungur en eflaust þoldi ég þunna loftið betur þá,“ segir Trausti og bætir við að margir hafi talað um að góðir vættir hljóti að vaka yfir honum.

„En ef ég hefði verið 20 árum yngri þá hefði ég kannski ekki snúið við.“

Spurður hvort hann hyggist reyna á ný svarar Trausti neitandi og kveðst einungis stunda fjallgöngur fyrir sjálfan sig.

„Ég sé ekki fyrir mér að gera eitthvað svona aftur. Þetta var bara eitthvað sem mig langaði að gera. Ég er ekki með neina þráhyggju fyrir svona ferðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert