Keyrði hringinn í kringum landið í æfingaakstri

Feðginin Axel og Hanna María héldu í þriggja daga æfingaakstur …
Feðginin Axel og Hanna María héldu í þriggja daga æfingaakstur umhverfis landið. Samsett mynd/Aðsend

Feðgin keyrðu samtals 1.560 kílómetra umhverfis landið nýverið. Er það ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ferðin var raunar æfingaakstur hinnar sextán ára gömlu Hönnu Maríu Axelsdóttur, en hún keyrði alla leiðina sjálf.

„Ég hafði nú boðist til að leysa hana eitthvað af þegar hún yrði þreytt, en svo fannst henni þetta svo gaman að það kom ekki til greina að ég myndi leysa hana af,“ segir Axel Axelsson, faðir Hönnu Maríu, í samtali við mbl.is.

Góður lærdómur og samverustund

Segir Axel akstur Hönnu Maríu hafa tekið miklum framförum í ferðinni, en hún hóf fyrst æfingaakstur fyrir rúmum mánuði síðan.

Aðspurður segir hann dótturina vissulega hafa verið örlítið smeyka í fyrstu, enda hófu þau ferðina á langri keyrslu. Hún hafi þó fljótt tekið við sér í akstrinum og sé orðin mun öruggari undir stýri fyrir vikið.

„Hún lærði mikið af þessu og svo fengum við góða samverustund út úr þessu, en vissulega snéru samtölin okkar, sérstaklega í byrjuninni, um akstur,“ segir Axel.

Segir Axel dótturina ekki hafa tekið í mál að hann …
Segir Axel dótturina ekki hafa tekið í mál að hann myndi leysa hana af í akstrinum. Samsett mynd/Aðsend

Keyrði 656 km fyrsta daginn

Þau feðgin ákváðu að taka hringinn á þremur dögum. Hófst ferðin á þriðjudagsmorgni og var Hönnu Maríu aldeilis hent í djúpu laugina og keyrði hún 656 kílómetra á Fáskrúðsfjörð þar sem þau gistu.

Seinni daginn voru stoppin fleiri og aksturinn styttri til að skoða fossa og aðrar náttúruperlur og keyrði Hanna María „einungis“ 319 kílómetra á Ásbyrgi. Síðasta daginn keyrði hún 525 kílómetra í bæinn.

„Það voru sumir að segja við mig að við hefðum átt að gefa okkur lengri ferð og skoða landið betur. En þetta snérist ekki um að vera túristi, þetta snérist um að fara í bíltúr, þess vegna tókum við þetta á skömmum tíma. Hún hefur alveg farið hringinn áður.“

Hættulegra að vera á bílastæði

Aðspurður kveðst hann alveg mæla með æfingaakstri með þessu sniði fyrir þá sem treysta sér til og nenna, enda góð leið fyrir krakka til að spreyta sig í breytilegu veðri og lengri keyrslu.

„Mér finnst ekki skipta máli hvort það sé úti á þjóðvegi eða í borginni. Hættulegasti staðurinn er liggur við á bílastæði.“

Segir Axel enn nokkuð í að Hanna María þreyti prófið, þó að hún sé orðin fær í flestan sjó, enda sé hún aðeins nýorðin sextán ára. Þau hafi tekið hringinn á sjálfskiptum bíl en hún hafi hug á að taka próf á beinskiptum bíl og muni því halda æfingaakstri áfram á slíkum í bænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert