Kjarapakkinn „snýttur út úr nös á vinstristefnunni“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir að kjarapakkinn sé stórt skref í …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir að kjarapakkinn sé stórt skref í átt að því að draga úr fátækt á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi formaður Vinstri grænna, segir að aðgerðarpakki stjórnvalda vegna kjarasamninga sé „eins og snýttur út úr nös á vinstristefnunni“.

Flokksráð VG var í gær samankomið í Stapa í Reykjanesbæ og sagði Guðmundur í ræðu sinni að fundurinn yrði nýttur til að fara aftur í ræturnar.

Aðgerðarpakki stjórn­valda vegna kjara­samn­inga til fjögurra ára sem voru undirritaðir í vor nemur um 80 millj­örðum króna.

„Seinni hluta vetrar var gengið fá kjarasamningum til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði og ríkisstjórnin kom inn í það með ríflegan kjarapakka. Sá kjarapakki er nefnilega sniðinn að lágtekju- og fjölskyldufólki og eykur jöfnuð og félagslegt réttlæti í samfélaginu,“ sagði Guðmundur, sem er félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Segir kjarapakkann stórt skref

Hann nefndi að aðgerðarpakkinn hefði falið í sér aukningu til barnabóta, þakið í fæðingarorlofinu hafi hækkað, húsnæðisbætur auknar, bætt í stofnframlög inn í almenna íbúðakerfið til að byggja fleiri leiguíbúðir og svo gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

„Kjarapakkinn í heild sinni er eins og snýttur út úr nös á vinstristefnunni. Kjarapakkinn er stórt skref í átt að því að draga almennt úr fátækt á Íslandi, um leið og hann leggur lóð á vogarskálar stöðugleikans á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára.“

Það kom ýmislegt fram í ræðu ráðherrans í gær. Hann sagði að það væri „ekki forgangsmál“ að breyta útlendingalögum, sem fer þvert á móti yfirlýsingar frá ráðherrum úr röðum sjálfstæðismanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert