Stefán E. Stefánsson
Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir tíu milljóna orlofsgreiðslu til Dags B. Eggertssonar „þvælu“. Stefán Pálsson, varaborgarfulltrúi VG, segist hissa á greiðslunni.
Sigríður og Stefán eru nýjustu gestir Spursmála. Hún segir að hálaunafólki á borð við borgarstjóra sé umbunað fyrir að vera alltaf í vinnu og að því beri að skjóta inn fríi þegar því verður við komið. Ekki gangi að fólk í þessari stöðu mæti til leiks við starfslok og ætlist til þess að uppgjör fari fram á ónýttu orlofi.
Stefán Pálsson er varaborgarfulltrúi VG. Hann segir málið undarlegt og tekur undir gagnrýni verkalýðsforystunnar.
„Þau benda á að kerfið sé miklu duglegra með fólkið á gólfinu, að hnippa í það og segja að það geti ekki fært orlofið svona og svona fram í tímann en svo slakni mjög á þessu þegar kemur að millistjórnendum eða stjórnendum einstaka starfsstöðva, þá eru einhvern veginn önnur lögmál og svo enn önnur lögmál þegar komið er inn í Ráðhúsið. Þetta er náttúrulega ekki góður bragur,“ segir Stefán.
Hann telur að borgarfulltrúar og borgarstjóri, njóti ekki eiginlegs orlofsréttar en taki frí þar sem því verði við komið. Sigríður segir það ekki rétt. Ráðherrar njóti t.d. orlofsréttar og að haldið sé utan um það í ráðuneytunum þegar þeir taki frí.
Viðtalið við Stefán og Sigríði má sjá og heyra í spilaranum hér að neðan.